Home / Fréttir / Frakkland: Gagnaleka ætlað að skaða Emmanuel Macron á lokametrunum

Frakkland: Gagnaleka ætlað að skaða Emmanuel Macron á lokametrunum

Emmanuel Macron
Emmanuel Macron

Seinni umferð frönsku forsetakosninganna er sunnudaginn 7. maí. Því er spáð að mið-vinstrimaðurinn Emmanuel Macron sigri Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar. Macron nýtur stuðnings þeirra sem vilja að Frakkar fylgi áfram svipaðri stefnu í alþjóða- og innanríkisálum og þeir hafa gert undanfarna áratugi. Le Pen vill brjóta upp utanríkisstefnuna og herða aðgerðir innan lands til að verja hefðbundið franskt þjóðlíf gegn alþjóðavæðingunni.

Að kvöldi föstudags 5. maí, síðasta dags sem frambjóðendur máttu ræða við kjósendur, var lekið miklu magni af tölvugögnum, þar með tölvubréfum sem tölvuþrjótar höfðu stolið frá Emmanuel Macron og kosningastjórn hans.

Franska yfirkjörstjórnin gaf laugardaginn 6. maí út tilkynningu um að það kynni að vera refsivert að endurbirta eitthvað af þessu stolna tölvuefni.

Kannanir benda til þess að Macron, 39 ára, verði næsti forseti Frakklands. Hann sigri með 62% gegn 38%. Tæplega fjórðungur kjósenda var óákveðinn þegar síðustu niðurstöður kannana voru birtar.

Yfirkjörstjórnin sagði í tilkynningu sinni:

„Rétt fyrir kosningar til æðsta embættis þjóðarinnar hvetur yfirkjörstjórnin alla sem hafa aðgang að vefsíðum og samfélagsmiðlum, einkum fjölmiðlamenn en einnig allan almenning til að sýna ábyrgð og ekki senda þetta efni áfram til þess að spilla ekki fyrir kosningunum. Yfirkjörstjórnin leggur áherslu á að birting eða endurbirting þessa skjala … kann að vera refsiverð.“

Franskir fjölmiðlar sögðu frá tölvugögnunum á ólíkan hátt. Vinstra blaðið Libération gaf þeim mikið rými á vefsíðu sinni en sjónvarpsstöðvar ákváðu að minnast ekki á efni gagnanna.

Á vefsíðu Le Monde sagði að fyrir kosningarnar yrði ekki birt neitt af því sem væri að finna í stolnu gögnunum. Annars vegar væri gagnamagnið svo gífurlega mikið að ekki væri unnt að segja á viðunandi hátt frá hvað þar væri að finna á svo skömmum tíma hins vegar gæfi tímasetning birtingarinnar 48 stundum fyrir lokun kjörstaða til kynna ásetning um að hafa áhrif á úrslitin.

„Sé uppljóstranir að finna í skjölunum verða þær að sjálfsögðu birtar í Le Monde eftir að efnið hefur verið grandskoðað í samræmi við síða- og ritstjórnarreglur okkar og án þess að nafnlausir gerendur geti nýtt sér birtingartíma okkar í annarlegum tilgangi,“ sagði ritstjórn Le Monde.

Florian Philippot, varaformaður Þjóðfylkingarinnar, sagði á Twitter að kvöldi föstudags 5. maí: „Fræðir Marconlekinn okkur um eitthvað sem rannsóknarblaðamenn hafa vísvitandi haldið í þagnargildi?“

Allt að 9 gígabætum af gögnum sem sögð voru geyma upplýsingar um kosningabaráttu Macrons voru sett undir nafninu EMLEAKS á Pastebin, vefsíðu þar sem unnt er að dreifa gögnum í skjóli nafnleyndar.

Hver bar ábyrgð á birtingunni er óljóst. Frá kosningastjórn Macrons barst fjölmiðlum yfirlýsing þar sem sagði að með tölvuinnbrotinu væri gerð tilraun til að vega að lýðræðinu og skaða flokkinn Áfram! sem Macron stofnaði í fyrra. Í yfirlýsingunni sagði að í gögnunum væri að finna hefðbundin kosningagögn. Tölvuþrjótarnir hefðu þó einnig laumað í gagnasafnið fölsuðum skjölum til að „ala á efasemdum og upplýsingafölsunum“.

Í janúar 2017 sögðu leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði gefið fyrirmæli um tölvuárásir á aðila sem tengdust Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, í bandarísku forsetakosningunum í nóvember 2016, með þessu hefðu Rússar viljað styrkja stöðu Donalds Trumps, frambjóðanda repúblíkana.

Vitali Kremez, rannsóknarstjóri hjá netvarnafyrirtækinu Flashpoint í New York, sagði að athugun hans sýndi að APT 28, hópur tengdur GRU, leyniþjónustu rússneska hersins, stæði að baki lekanum um Macron.

Áður en til lekans kom hafði kosningastjórn Macrons kvartað undan tilraunum til að brjótast inn í tölvupósthólf sín. Taldi hún að skjólstæðingar Rússa ættu þarna hlut að máli.

Kremlverjar neita allri aðild að slíkum árásum.

Heimild: Reuters.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …