François Fillon (62 ára) vann góðan sigur í seinni umferð prófkjörs franska Lýðveldisflokksins (mið-hægri) sunnudaginn 27. nóvember. Hann hlaut 66,5% atkvæða en Alain Juppé (71 árs) 33,5%. Alls kusu 4.380.377 í seinni umferðinni en 4.272.880 hver kjósandi greiddi eina evru fyrir atkvæðaseðilinn. Tekjur flokksins voru rúmlega 9 milljónir evra en kostnaður við prófkjörið talinn nema um 8 milljónum evra. Lýðveldisflokkurinn hagnaðist því fjárhagslega á prófkjörinu samhliða því að velja frambjóðanda sem er mjög sigurstranglegur í forsetakosningunum sjálfum vorið 2017.
Vinstrisinnar lýsa Fillon sem „últra-líberal“, mætti því kalla hann nýfrjálshyggjumann á íslensku. Sumir þeirra segja því að finna verði sanntrúaðan vinstrisinna til að berjast við Fillo. Skoðanakannanir segja að François Hollande forseti fengi aðeins um 9% atkvæða keppti hann við Fillon og Manuel Valls forsætisráðherra fengi einnig aðeins um 9%. Talið er að Hollande ákveði eftir tvær vikur hvort hann bjóði sig fram til endurkjörs. Verði prófkjör hjá sósíalistum verður það í janúar 2017. Meðal sósíalista segja ýmsir óhugsandi að kosið verði milli forsetans og forsætisráðherrans í prófkjöri.
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, hóf forsetakosningabaráttu sína samhliða prófkjörsbaráttunni í Lýðveldisflokknum. Talið er að hún og Fillon keppi í seinni umferð forsetakosninganna í maí 2017.
Stjórnmálaskýrendur segja að aukin þjóðerniskennd meðal Frakka hafi verið vatn á myllu íhaldsmannsins Fillons en veikt miðjumanninn Juppé. Fillon var forsætisráðherra í forsetatíð Nicolas Sarkozys árin 2007 til 2012. Óvenjulegt er að forseti skipti ekki um forsætisráðherra á kjörtímabili sínu. Þetta sannar staðfestu Fillons sem segir nú að „skipta verið alveg um forrit“ í Frakklandi samhliða því sem staðinn sé vörður um „frönsk gildi“. Fillon vill skera niður ríkisútgjöld, herða útlendingalög, standa vörð um hefðbundin fjölskyldugildi og bæta samskiptin við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.