Franska lögreglan handtók fimmtudaginn 24. mars Reda Kriket, 34 ára, vegna gruns um að hann undirbyggi voðaverk í Frakklandi. Í fyrra var Kriket dæmdur í Brussel ásamt Abdelhamid Abaaoud, skipuleggjanda hryðjuverkanna í París 13. nóvember 2015, að þeim fjarstöddum í máli gegn hópi vígamanna með tengsl við Sýrland.
Í Brussel handtók belgíska lögreglan sex menn aðfaranótt föstudags 25. mars grunaða um aðild að hryðjuverkastarfsemi, þrír þeirra náðust fyrir utan aðsetur ríkissaksóknara í Brussel.
Reda Kriket var handtekinn í Argenteuil í Val d’Oise skammt fyrir utan París. Þar fannst jafnframt dálítið af sprengiefni. Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, sagði þó ekkert í fórum Krikets benda til tengsla hans við hryðjuverkin í París eða Brussel. Hann er dæmdur þjófur.
Reda Kriket er fæddur 17. janúar 1982 í Frakklandi og er því franskur ríkisborgari. Hann bjó í Ixelles-hverfinu í Brussel til mars 2014 þegar gefin var út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum.
Óskin um handtöku á Kriket var liður í aðgerðum belgísku lögreglunnar til að uppræta flokk múslímskra vígamanna með tengsl við Sýrland. Forystu fyrir þessum flokki hafði Khalid Zerkani, 41 árs Brusselbúi, sem belgísk lögregluyfirvöld segja þann einstakling sem kallað hafi flesta menn til þátttöku í vígasveitum múslima í Belgíu. Í júlí 2015 var Kriket dæmdur, að honum fjarstöddum, í 10 ára fangelsi og tók refsingin mið af því að hann hafði áður verið dæmdur í fimm ára fangelsi af dómara í Nanterre í Frakklandi.
Í þessu máli í Brussel var Kriket sakaður um að hafa lagt vígamönnunum til fé meðal annars með því að láta hluta af þýfi sínu renna til þeirra í samræmi við svonefnda Ghamina-reglu múslima um að skipta skuli ránsfeng.
Í þessu sama dómsmáli hlaut Abdelhamid Abaaoud, sem var var drepinn 18. nóvember í árás frönsku lögreglunnar á feluíbúð hans í Saint-Denis við París, 20 ára dóm, að honum fjarstöddum.
Alls hlutu 28 menn dóm í þessu belgíska máli 29. júlí 2015. Sumir þeirra höfðu verið sendir til Sýrlands, þar á meðal Abdelhamid Abaaoud og Chakib Akrouh, tveir skipuleggjenda árásanna í París 13. nóvember 2015.
Franski innanríkisráðherrann sagði að handtaka Reda Krikets skipti „miklu“ því að með henni hefði verið unnt að „koma í veg fyrir árás á Frakkland“ en undirbúningur hennar hefði verið komin „vel á veg“. Hópur hryðjuverkamanna hefði átt aðild að þessum undirbúningi.
Ráðherrann sagði að rannsókn þessa máls hefði staðið í „nokkrar vikur“ í umboði dómara með þátttöku franskra lögreglu- og leyniþjónustumanna í náinni samvinnu við aðrar Evrópuþjóðir.
Heimild: AFP