Home / Fréttir / Frakkland: 65% vilja að Fillon hætti við forsetaframboð, segist ætla að berjast til sigurs

Frakkland: 65% vilja að Fillon hætti við forsetaframboð, segist ætla að berjast til sigurs

François Fillon forsetaframbjóðandi.
François Fillon forsetaframbjóðandi.

Könnun sem franska sunnudagsblaðið JDD birti 19. febrúar sýnir að 65% svarenda vilja að François Fillon, forsetaframbjóðandi Lýðveldisflokksins (mið-hægri), hætti við framboð sitt og dragi sig í hlé. Fillon sagði hins vegar föstudaginn 17. febrúar að hann héldi sínu striki og myndi hvergi hvika.

Einörð yfirlýsing Fillons um að láta skeika að sköpuðu vegna kosninganna 23. apríl stangast á við það sem hann hafði áður sagt, að hann ætlaði að draga sig í hlé yrði hafin formleg lögreglurannsókn á hvernig háttað var launagreiðslum til eiginkonu hans, Penelope, fyrir störf sem hún hefði ekki unnið.

Fyrir fáeinum dögum tilkynnti saksóknari efnahagsbrota sem rannsakar opinberar greiðslur á nærri milljón evrum til eiginkonu Fillons og tveggja barna þeirra að fyrirliggjandi gögn leiddu til þess að málið yrði ekki látið niður falla.

„Rannsóknin heldur áfram í fullu samræmi við reglur sem gilda um rannsókn sakamála,“ sagði í yfirlýsingu efnahagsbrotaskrifstofunnar fimmtudaginn 16. febrúar.

Talið er að rannsóknin taki enn nokkurn tíma. Eftir að safnað hefur verið frekari gögnum og lagt mat á þau ákveður saksóknari næstu skref. Verði ekki fallið frá málinu verður annað hvort gefin út kæra eða málið fer í hendur rannsóknardómara. Þessi deild efnahagsbrota hefur starfað í þrjú ár og venjan er að hún gefi sjálf út kæru.

Fillon sagði í samtali við Le Figaro að það yrði „hneyksli“ ef frambjóðanda mið-hægrimanna yrði kippt úr umferð. „Því nær sem dregur kjördegi þeim mun meira hneyksli yrði það að svipta mið-hægrimenn frambjóðanda sínum,“ sagði Fillon í samtalinu. „Ákvörðun mín er skýr: Ég er í framboði allt til sigurs.“

Í könnun Ifop fyrir JDD voru 1004 spurðir. Stuðningur við Fillon meðal flokksmanna Lýðveldisflokksins hafði aukist um sex stig milli kannana og sögðust 70% vilja að hann héldi fast við framboð sitt.

Fyrir skömmu birti Le Monde niðurstöður í mun viðameiri könnun sem Ipsos-Sopra Steria gerði með því að spyrja 7. til 12. febrúar 15.874 manns. Þar naut Fillon minni stuðnings en Emmanuel Macron, fyrrv. bankamaður og efnahagsmálaráðherra sósíalista, sem stofnað hefur eigin flokk, Áfram. Macron fékk 23% en Fillon 18,5%. Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, fékk 26%.

Tvær umferðir eru í frönsku forsetakosningunum fái enginn yfir 50% í fyrri umferðinni. Hún verður að þessu sinni 23. apríl en sú seinni tveimur vikum síðar. Gjarnan er sagt að í fyrri umferðinni kjósi menn þann sem þeir styðji til að verða forseti en í seinni umferðinni sé kosið gegn þeim sem menn vilja ekki sem forseta. Þetta leiði til þess að Marine Le Pen verði ekki forseti hvort sem Macron eða Fillon berjist við hana í einni umferðinni.

Gagnspillingardeild ESB (OLAF) er sögð rannsaka nú hvernig Marine Le Pen stóð að greiðslum á starfskostnaðarfé sem henni var greitt sem þingmanni á ESB-þinginu. Á vefsíðunni Mediapart hefur verið greint frá því að Le Pen hafi viðurkennt að hafa notað starfskostnaðarfé til að greiða laun öryggisvarðar síns, Thierrrys Légiers, alls 41.445 evrur frá október til desember 2011 með því að fullyrða ranglega að hann aðstoðaði hana við þingstörfin. Marine Le Pen hefur í útvarpsviðtali hins vegar neitað að hafa „játað eitthvað þessu líkt í samtali við rannsakendur“.

Fillon hefur sakað fjölmiðla um ómaklega atlögu gegn sér og fjölskyldu sinni. Hann sigraði með 67% stuðningi prófkjör innan Lýðveldisflokksins um val á forsetaframbjóðanda. Síðan kom Penelope-hneykslið til sögunnar þegar vikublaðið Le Canard enchainé sagði frá opinberu greiðslunum til eiginkonu Fillons og barna þeirra. Við það hrundi stuðningur við Fillon.

Föstudaginn 17. febrúar efndi Fillon til kosningafundar í Tourcoing, skammt frá belgísku landamærunum. Þá var gripið til þess ráðs að loka fundarsalnum fyrir öðrum en stuðningsmönnum Fillons til að komast hjá uppnámi á fundinum vegna mótmælenda. Þeir söfnuðust saman fyrir utan fundarstaðinn, hrópuðu vígorð og börðu potta og pönnur.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …