
Clement Beaune, Evrópuráðherra Frakklands, hvatti þýsku ríkisstjórnina mánudaginn 1. febrúar til að hætta við lagningu gasleiðslunnar Nord Stream 2 frá Rússlandi til Þýskalands. Vísaði hann sérstaklega til þess hve mikill fjöldi fólks var handtekinn í Rússlandi vegna mótmæla í tengslum við fangelsun rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalníjs.
Fyrir utan Frakka hafa forystumenn Bandaríkjanna, Póllands og fleiri Evrópuríkja harðlega gagnrýnt lagningu leiðslunnar. Þeir telja að með gaskaupum um hana verði Þjóðverjar of háðir Rússum í orkumálum. Til þessa hafa Frakkar frekar haldið sér til hlés í gagnrýni sinni vegna þessa.
„Við höfum alla tíð lýst verulegum efasemdum vegna þessa verkefnis,“ sagði Beaune við Inter-útvarpsstöðina.
Ráðherrann var spurður hvort franska stjórnin vildi að sú þýska hætti við verkefnið: „Vissulega, það hefur þegar komið fram.“
Gagnrýni á stjórnarhætti Vladimirs Pútins Rússlandsforseta vex vegna frétta af harðræði sem þeir eru beittir sem mótmæla í borgum og bæjum um allt Rússland.
„Þegar hefur verið gripið til refsiaðgerða, það má herða þær, hitt þarf hins vegar að vera skýrt, þær duga ekki. Í þessu sambandi ber að líta til Nord Stream 2. Þar er hins vegar um ákvörðun Þjóðverja að ræða, gasleiðslan liggur til Þýskalands,“ sagði Beaune.
ESB-þingið vill einnig að þegar í stað verði hætt við að leggja Nord Stream 2 leiðsluna.
Þýska ríkisstjórnin krefst þess að Navalníj verði látinn laus en mánudaginn 1. febrúar bárust þau boð frá þýskum kanslaraskrifstofunni að stefna stjórnarinnar væri óbreytt varðandi Nord Stream 2. Angela Merkel hefur hvað eftir annað lýst stuðningi við verkefnið.
Græninginn Jürgen Trittin, fyrrverandi umhverfisráðherra Þýskalands, sagði við þýsku fréttastofuna DW að það væri tilgangslaust að hætta við Nord Stream 2. Rússneskir aðilar málsins fengju skaðabætur frá Þýskalandi en gætu áfram selt gas eftir öðrum leiðum til Þýskalands.
Hann sagðist aldrei hafa stutt lagningu leiðslunnar en það yrði líklega mjög dýrkeypt að hætta við hana núna. Áhrifin yrðu ekki heldur mikil því að Rússar hefðu fjölda annarra leiða til að selja gas.
Renate Alt, þingamaður Frjálsra demókrata, sagði hins vegar við DW að það ætti að stöðva Nord Stream 2 verkefnið og ekki hefja það að nýju fyrr en rússnesk stjórnvöld hefðu gert hreint fyrir sínum dyrum vegna Navalníjs.
Rússneska risa-orkufyrirtækið Gazprom helsti eigandi Nord Stream 2 segir að 94% verkefnisins sé lokið. Um er að ræða tvö rör sem lagt er um 1.230 km og nota má til að flytja tugi milljarða rúmmetra af jarðgasi frá Rússlandi til Þýskalands ár hvert.