Home / Fréttir / Frakkar og Þjóðverjar árétta mikilvægi ESB-hers í nýrri skýrslu

Frakkar og Þjóðverjar árétta mikilvægi ESB-hers í nýrri skýrslu

Liðsmenn Eurocorps í Strassborg.
Liðsmenn Eurocorps í Strassborg.

 

Frakkar og Þjóðverjar hafa lagt fram sameiginlega tillögu um „virkari og gagnlegri“ varnarmálastefnu ESB, sagði franska varnarmálaráðuneytið við AFP-fréttastofuna föstudaginn 9. september.

Um er að ræða skjal sem kynnt er af Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakka, og Ursulu von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands. Franska ráðuneytið segir að í því felist grunnur til að endurvekja áform um varnarsamstarf innan ESB. Efni skjalsins er kynnt nú vegna óformlegs fundar leiðtoga 27 ESB í Bratislava i Slóvakíu í vikunni.

Franskur samstarfsmaður Drians ráðherra segir að ætlunin sé að efla hernaðarsamstarfs á ESB-grunni án þess að hrófla við því að herir einstakra landa muni áfram skipta sköpum fyrir öryggi hvers ESB-lands um sig.

Hann sagði að miklu skipti að unnt yrði að grípa til aðgerða í nafni ESB á mun auðveldari hátt en nú sé unnt. Um væri að ræða „raunhæfar“ hugmyndir en ekki aðeins „megindrætti“.

Í fransk-þýsku tillögunum er gert ráð fyrir að komið verði á fót höfuðstöðvum evrópskra varna, sameiginlegu njósnakerfi með gervihnöttum og samnýtingu her- og hjúkrunarbúnaðar, segir í frétt þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung laugardaginn 10. september.

Blaðið segir að fjöldi þátttökuríkja í einstökum verkefnum kunni að verða breytilegur þar sem ógjörningur verði að fá þau öll til að sameinast um allt.

Þá er einnig gert ráð fyrir að nýta sameiginlegu herdeildina Eurocorps betur. Þar mynda Frakkar og Þjóðverjar kjarnann. Hermenn frá Belgíu, Spáni og Lúxemborg taka einnig þátt í störfum herdeildarinnar sem hefur bækistöð í Strassborg. Henni er ætlað að komast fljótt á hættuvettvang.

Í fréttum um þessar tillögur er  þess jafnan minnst að auðveldara sé fyrir ESB-ríkin 27 að efla samstarf sitt í hermálum eftir að Bretar ákváðu að segja skilið við sambandið. Ursula von der Leyen hefur ítrekað sagt að bresk stjórnvöld hafi „lamað“ tilraunir innan ESB til að samhæfa stefnu sína í öryggismálum meira en orðið er.

Þegar ríkisoddvitar NATO-landanna komu saman í Varsjá í júlí 2016 notuðu Angela Merkel Þýskalandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti tækifærið til að árétta mikilvægi þess að sérstakar ráðstafanir á sviði hermála yrðu gerðar innan ESB.

Þess er vænst að óformlegi ESB-leiðtogafundurinn í Bratislava verði til þess að koma ýmsum málum innan ESB á hreyfingu auk hermálanna.

Heimild: The Local

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …