Home / Fréttir / Frakkar og Bretar herða stríðsaðgerðir gegn íslamska ríkinu

Frakkar og Bretar herða stríðsaðgerðir gegn íslamska ríkinu

Rafale-þota
Rafale-þota

Franskar Rafale-orrustuvélar hófu að morgni þriðjudags 8. september fyrstu njósnaferðir sínar yfir Sýrlandi í samræmi við yfirlýsingu François Hollandes forseta mánudaginn 7. september. Þær flugu frá bækistöðvum sínum við Persaflóa. Franska varnarmálaráðuneytið sagði að teknar yrðu háloftamyndir af stöðvum hryðjuverkamanna Íslamska ríkisins til að gera franska hernum kleift að leggja sjálfstætt mat á stöðuna. Frakklandsforseti sagði að þessi njósnaflug kynnu að leiða til loftárása franska flughersins,

Breski flugherinn drap hinn 21. ágúst þrjá liðsmenn Íslamska ríkisins í Sýrlandi, þar af tvo Breta, í drón-árás, hinni fyrstu sem gerð hefur verið. David Cameron forsætisráðherra skýrði breska þinginu frá þessu mánudaginn 7. september. Sagði hann að um „sjálfsvörn“ hefði verið að ræða enda hefðu legið fyrir „ótvíræðar sannanir um að viðkomandi einstaklingar undirbyggju og stjórnuðu árásum með vopnum gegn Bretlandi“.

Cameron sagði að Bretinn Reyaad Khan og tveir aðrir, þar á meðal annar Breti, hefðu verið drepnir þegar þeir óku í farartæki skammt frá yfirlýstri höfuðborg Íslamska ríkisins, Ragga í Sýrlandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem skýrt er frá árás breska flughersins á skotmark í Sýrlandi. Hann hefur gert árásir í Írak og notað dróna til njósna í Sýrlandi.

Talið er að 500 til 600 Bretar hafi gengið til liðs hryðjuverkamennina í Íslamska ríkinu ásamt með þúsundum annarra útlendinga. Markmið hryðjuverkamannanna er að koma á fót kalífa-ríki á landi sem hefur verið hlut Íraks annars vegar og Sýrlands hins vegar,

Franskar hervélar hafa gert árásir á stöðvar hryðjuverkamanna í Írak. Verði þeim beitt í Sýrlandi yrðu Frakkar fyrstir vestrænna þjóða til að slást í lið með Bandaríkjamönnum við loftárásir þar.

Auk Bandaríkjamanna og Frakka taka aðrar þjóðir þátt í loftárásum í Írak, þar á meðal Ástralir, Bretar, Danir, Hollendingar, Jórdanir og Kanadamenn. Í Sýrlandi hefur herafli frá Bahrain, Jórdaníu, Kanada, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sádí Arabíu og Tyrklandi staðið að loftárásum auk Bandaríkjamanna.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …