Home / Fréttir / Frakkar hlynntir framtíðaraðild Úkraínu að NATO

Frakkar hlynntir framtíðaraðild Úkraínu að NATO

Emmnanuel Macron Frakklandsforseti

Frakkar styðja að Úkraína geti orðið aðili að NATO þegar fram líða stundir. Telur franska stjórnin að með þessu þrýsti hún á Rússa til að þeir hefji viðræður um að ljúka innrásarstríðinu í Úkraínu. Vaxandi líkur eru á að stjórnin í Kyív reyni að ná Krímskaga úr höndum Rússa.

Frakkar og Þjóðverjar stóðu gegn því á ríkisoddvitafundi NATO í Búkarest vorið 2008 að Úkraína kæmi til álita sem NATO-ríki eins og Bandaríkjastjórn vildi þá.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti vildi ekki leggja NATO-aðild Úkraínu lið fyrir og eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.

Forsetinn sagði við Le Monde í desember 2022: „Rússar kynnu að telja inngöngu Úkraínu í NATO sem óvinabragð. Hún er óhugsandi með Rússa í þessum ham.“

Efnt var til fundar í franska varnarmálaráðinu í Elysée-höll 12. júní 2023 þar sem Frakklandsforseti og stjórn hans íhuguðu hugsanlega NATO-aðild Úkraínu að sögn Le Monde.

Blaðið segir að á fundinum hafi það sjónarmið verið reifað að með stuðningi Frakka við NATO-aðild Úkraínu í aðdraganda ríkisoddvitafundar NATO-ríkjanna í Vilníus  í júlí væri unnt að knýja stjórnvöld í Moskvu og Kyív til að hefja viðræður.

Frakkar telja að það eitt að ræða um aðild Úkraínu feli í sér „öryggistryggingu“ því að það kunni að letja Rússa til að halda áfram stríðinu eða koma í veg fyrir frekari árás ljúki átökunum núna.

Þá er það einnig von frönsku stjórnarinnar að með slíkum stuðningi við yfirlýst áform Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta auðveldi það honum að ganga til viðræðna við Rússa með hliðsjón af árangri gagnsóknar Úkraínumanna, segir Le Monde.

Nýja stefna Frakklandsstjórnar gjörbreytir stöðu hennar gagnvart Póllandi og Eystrasaltsríkjunum sem styðja NATO-aðild Úkraínu. Þá færir hún Frakka einnig nær Þjóðverjum að sögn erlends stjórnarerindreka.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …