Home / Fréttir / Frakkar herða öryggisgæslu við kirkjur um jólahelgina

Frakkar herða öryggisgæslu við kirkjur um jólahelgina

 

 

 

Dómkirkjan í Strassborg
Dómkirkjan í Strassborg

Frökkum kemur mjög á óvart að hryðjuverkamanninum Anis Amri skuli hafa tekist að komast með leynd um Frakkland á leið sinni frá Berlín til Ítalíu. Í bakpoka hans fannst lestarmiði með TGV-hraðlest frá Chambéry í Savoie-héraði í Frakklandi til Tórínó á Ítalíu. Lögregla skaut hann til bana á brautarstöð í útborg Mílanó aðfaranótt föstudags 23. desember.

Neyðarlög gilda í Frakklandi. Þau hafa í för með sér að meiri vöktun á að vera hvarvetna, ekki síst í járnbrautarlestum. Þess vegna vekur furðu að hryðjuverkanmaður sem er eftirlýstur um alla skuli komast vopnaður með TGV-lest frá landinu til Ítalíu.

Eftir að Amri hafði framið hryðjuverkið í Berlín að kvöldi mánudags 19. desember fól franska innanríkisráðuneytið lögreglustjórum að herða gæslu á landamærum Frakklands og Þýskalands. Í samtali við Le Monde gátu stjórnendur frönsku járnbrautanna, SNCF, ekki staðfest hvort gripið hefði verið til sérstakra öryggisráðstafana í lestum á leið yfir landamæri.

Í ágúst 2015 reyndi Ayoyb El Khazzani frá Marokkó að hefja skothríð í Thalys-hraðlest frá Amsterdam til Parísar og eftir það var boðað að allt eftirlit í frönskum lestum yrði hert. Sérstakir vopnaðir varðliðar eiga að gæta öryggis í lestunum.

Um jólahátíðina hefur franska innanríkisráðuneytið falið öryggisliði sínu að gæta sérstaklega að öryggi kirkjubygginga en rúmlega 91.000 lögreglumenn og hermenn eru við störf um helgina.

Um jólin 2015, skömmu eftir hryðjuverkin í París, var einnig gripið til sérstakra öryggisráðstafana í kirkjum Frakkland með samvinnu yfirvalda öryggismála og kirkjunnar.

Í Frakklandi eru 45.000 kirkjur. Ógjörningur er að hafa vakt við hverja þeirra en alls eru 2391 kirkja undir sérstakri vernd þar af 1.117 í París og nágrenni. Þetta eru um helmingi fleiri kirkjur en nutu sérstakrar verndar um jólin 2015.

Til marks um öryggisráðstafanir má nefna að aðeins verður unnt að ganga inn um einar dyr dómkirkjunnar í Strassborg í miðnæturmessu á aðfangadagskvöld. Kirkjugestir þurfa að koma til messunnar einni klukkustund áður en hún hefst og fara í gegnum tvö öryggishlið. Leitað verður í töskum. Innan dyra verða öryggisverðir.

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …