Home / Fréttir / Frakkar hafna kurteislega Ermarsundsbrú

Frakkar hafna kurteislega Ermarsundsbrú

5616

Frakkar höfnuðu föstudaginn 19. janúar kurteislega lauslegri hugmynd Boris Johnsons, utanríkisráðherra Breta, um að smíðuð yrði brú milli Englands og Frakklands yfir Ermarsund. Frakkar sögðu að ekki bæri að blása á langsóttar hugmyndir en mörg verkefni biðu úrlausnar í Evrópu sem væru brýnni en þessi brúargerð.

Þegar Emmanuel Macron Frakklandsforseti var í heimsókn í Bretlandi fimmtudaginn 18. janúar er Johnson sagður hafa hreyft þeirri hugmynd að smíðuð yrði brú yfir um 35 km breitt Ermarsundið.

Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, sagði að engri hugmynd ætti að hafna að óathuguðu máli, jafnvel ekki þeim sem þættu fráleitastar. Nú þegar væru Frakkland og England tengd með göngum undir Ermarsund. Fjármálaráðherrann sagði einnig í útvarpsviðtali:

„Það er flókið að fjármagna mörg risastór evrópsk mannvirki. Við skulum ljúka við þau sem þegar eru á dagskrá áður en við snúum okkur að nýjum.“

Í fjölmiðlum er rifjað upp að það hafi tekið tvær aldir fyrir Breta að fallast á lagningu Ermarsundsganganna sem Napóleon Bonaparte keisari hafi á sínum lagt til að yrðu gerð.

Opinberlega reifaði Johnson aldrei hugmynd sína um Ermarsundsbrú í tengslum við heimsókn Macrons og óljóst er hvernig málið bar að en frá því var sagt í The Daily Telegraph á þann veg að Johnson teldi að ef til vill mætti nú fá einkaaðila til að fjármagna slíka brú. Hún yrði til að auka viðskipti og ferðamannastraum eftir úrsögn Breta úr ESB. Hann benti einnig á að enn lengri brýr væru til annars staðar.

Fulltrúar skipafélaga benda á að hundruð skipa fari um Ermarsund dag hvern enda sé sundið ein fjöl farnasta siglingaleið í heimi og erfitt yrði að sjá hagkvæmt sambýli brúar og skipa. Sum skipanna sem undir hana yrðu að fara væru meira en 60 metra há.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …