
Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, tilkynnti föstudaginn 15. september að hann hefði verið skipaður forseti World Economic Forum (WEF), stofnunarinnar sem skipuleggur árlegar ráðstefnur um heimsbúskapinn í Davos í Sviss með þátttöku forystumanna í stjórnmálum og viðskiptum.
Utanríkisráðherrann tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Osló með Ernu Solberg, flokkssystur sinni og forsætisráðherra. Hann sagði WEF vinna með ýmsum stærstu fyrirtækjum heims, stjórnmálamönnum og atvinnurekendum til að ná hnattrænum markmiðum.
Hann sagði að nú væri meiri þörf en nokkru sinni fyrr á óhlutdrægri stofnun sem gæti stuðlað að trausti milli ríkja og manna í ólíkum heimshlutum, æ fleiri vildu láta til sín taka í þessu efni.
Þýski hagfræðingurinn Klaus Schwab stofnaði World Economic Forum í Genf árið 1971.
Brende (51 árs) er menntaður í sögu, lögum og hagfræði. Hann varð virkur þátttakandi í starfi norska Hægriflokksins á níunda áratugnum. Fyrst var hann kjörinn i bæjarstjórn Þrándheims, hann varð umhverfisráðherra árið 2001 og efnahags- og viðskiptaráðherra árið 2004. Hann lætur af embætti utanríkisráðherra í október.
Brende gekk til liðs við WEF árið 2007 og var þar í forystu 2008 og 2009 og að nýju 2011 til 2013. Hann var sáttasemjari í viðræðum fulltrúa ríkisstjórnar Kólumbíu og FARC uppreisnarliðanna sem gerðu friðarsamning í nóvember 2016 eftir vopnuð átök í 53 ár.