Home / Fréttir / Fox News í vanda vegna frétta um kosningasvindl

Fox News í vanda vegna frétta um kosningasvindl

Rupert Murdoch, eigandi Fox News.
FILE PHOTO: New York, U.S. – September 10, 2017 – Rupert Murdoch, Chairman of Fox News Channel stands before Rafael Nadal of Spain plays against Kevin Anderson of South Africa. REUTERS/Mike Segar/File Photo

Smáskilaboð send í trúnaði og vitnisburður milljarðamæringsins og fjölmiðlajöfursins Ruperts Murdochs (91 árs), eiganda Fox News sjónvarpsstöðvarinnar, sýna að stjórnendur og stjörnur einstakra þátta stærstu bandarísku fréttasjónvarpsstöðvarinnar töluðu sín á milli um að ásakanir Trumps og fylgismanna hans um kosningasvindl í nóvember 2020 væru „geðveikislegar“.

Murdoch viðurkennir engu að síður nú að þrátt fyrir þessa vitneskju hafi nokkrir þáttastjórnendur Fox News „lýst stuðningi“ við þessar tilhæfulausu fullyrðingar á besta útsendingartíma fyrstu dagana eftir forsetakosningarnar 2020.

„Þegar ég lít til baka óska ég að við hefðum lýst sterkari andstöðu,“ sagði Murdoch í vitnaleiðslum vegna máls sem höfðað hefur verið gegn Fox News.

Sjálfur sagðist hann aldrei hafa trúað Donald Trump þegar hann fordæmdi kosningasvindlið.

„Við töldum að allt [sem snerti kosningarnar] hefði farið eftir settum reglum.“

Málaferlin þar sem Murdoch sat fyrir svörum sem vitni snúast um risakröfu frá fyrirtækinu Dominion sem framleiddi atkvæðatalningarvélar fyrir kosningarnar 2020. Krafan á hendur Fox News nemur rúmum 220 milljörðum ísl.kr. og er reist á því að í stöðinni hafi verið vegið að heiðri fyrirtækisins á fölskum forsendum.

Af gögnum sem lögð hafa verið fram vegna málsins má ráða að stjórnendur og þáttastjórar Fox News hafi fengið áfall vegna kosningaúrslitanna og ekki vitað sitt rjúkandi ráð.

Trump hvatti fylgismenn sína til að slökkva á Fox News þegar stöðin lýsti Joe Biden sigurvegara í lykilríkinu Arizona.

Áhorfendum Fox News snarfækkaði og enginn vissi hvernig ætti að bregðast við ásökunum Trumps um svindl.

Helsta stjarna stöðvarinnar, Tucker Carlson, sagði í smáskilaboðum til samstarfsmanns að ásakanir liðsmanna Trumps væru „geðveikislegar“. Hann óttaðist hvaða áhrif þær kynnu að hafa áhorfendur.

„Áhorfendur okkar er gott fólk og það trúir þessu,“ skrifaði Carlson, þar með gaf hann til kynna að hann væri ekki í þeim hópi.

Tucker Carlson valdi þann kost í útsendingum sínum að gæla við samsæriskenningar um svindl en hann gagnrýndi einnig fullyrðingar lögfræðinga Trumps í beinni útsendingu.

Næstskærasta stjarnan, Sean Hannity, skrifaði að hann tryði fullyrðingunum ekki „í eina sekúndu“.

Rupert Murdoch skrifaði til Suzanne Scott, forstjóra Fox News, að lögfræðingar Trumps, þeir Rudy Giuliani og Sidney Powell segðu „stórundarlega hluti“ þegar þeir birtust á skjánum og hann væri hræddur um að ásakanir þeirra um svindl kynnu að „skaða okkur öll“.

Stjórnendur Fox News íhuguðu hvort þáttastjórnendur ættu að árétta afdráttarlaust að Joe Biden hefði sigrað í kosningabaráttunni. Þeir ákváðu hins vegar að láta það ógert. Suzanne Scott óttaðist að þá kynni stöðin að fæla frá sér áhorfendur.

Þáttastjórnendur veltu upp ásökunum um kosningasvindl og leyfðu lögfræðingum Trumps að tjá sig án andmæla.

Fréttaskýrendur segja að þeir hafi lagt meiri áherslu á fjölda áhorfenda en sannleikann.

Nú er síðan rætt um meiriháttar fjölmiðlahneyksli: stærsta bandaríska fréttasjónvarpsstöðin hafi tekið þátt í að dreifa ásökunum sem grófu undan lýðræðinu þótt stjórnendur stöðvarinnar vissu að ekki væri fótur fyrir því sem sagt var.

Þetta getur skapað Fox News mikinn vanda og orðið stöðinni ákaflega dýrkeypt bæði fjárhagslega og faglega.

Skaðabótakrafan frá Dominion snýst um að Fox News hafi dreift röngum ásökunum, að atkvæðatalningarvélar hafi fært atkvæði yfir til Bidens og að eigendur fyrirtækisins hafí í raun starfað í þjónustu Hugos Chavéz, látins forseta Venesúela.

Fjárhæðirnar sem um er að ræða geta verulega skaðað Fox News.

Til að vinna málið verður lögfræðingum Dominion að takast að sanna að Fox News hafi ekki aðeins dreift röngum upplýsingum heldur einnig gert það af ásetningi af því að innan stöðvarinnar vissu menn að þær voru rangar.

Þegar Rupert Murdoch bar vitni viðurkenndi hann að þáttastjórnendurnir Sean Hannity, Jeanine Pirro, Lou Dobbs og Maria Bartiromo hefðu öll hver með sínum hætti „stutt ásakanirnar“.

Murdoch sagði hins vegar að „hver skynsamur“ áhorfandi hefði þó skilið að Fox News leyfði gestum stöðvarinnar að tala á skjá hennar en legði ekki blessun yfir það sem fólst í ásökunum þeirra. Hann sakaði Dominion um að vilja kæfa frelsi fjölmiðlamanna og fjölmiðla.

Málið verður tekið fyrir í apríl. Lee Levine fjölmiðlalögfræðingur segir við The New York Times: „Ég kysi miklu frekar að vera í sporum Dominion en Fox á þessari stundu.“

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …