Þrír múslimaklerkar hafa verið skipaðir til að þjóna í Ægisif eftir að húsinu var breytt í mosku að nýju eftir 86 ára afhelgun. Fyrstu föstudagsbænir fóru þar fram að nýju 24. júlí 2020.
Eftir afhelgunina var Ægisif safn og voru gestir þar í fyrra rúmlega 3,7 milljónir manna. Byggingin er á heimsminjaskrá UNESCO og vinsælasti ferðamannastaðurinn í Istanbúl. Frá 1991 hefur smárými í húsinu verið ætlað til bæna. Nú er byggingin öll moska.
Húsið er um 1500 ára gamalt. Það var upphaflega reist sem kirkja fyrir kristna rétttrúnaðariðkendur en breytt í mosku árið 1453 og síðan afhelgað 1934 af Mustafa Kemal Atatürk, föður nútíma Tyrklands, sem dró skil á milli trúmála og stjórnmála.
Recep Tayyip Erdogan, núverandi Tyrklandsforseti, höfðar til heittrúaðra múslima og hefur lengi haft á stefnuskrá sinni að breyta Ægisif í mosku. Tyrkneskur dómstóll taldi lög ekki hindra það.
Erdogan var meðal þeirra sem fóru fyrstir til bæna í Ægisif klukkan 12.00 í Tyrklandi (09.00 á Íslandi). Ákveðið var að af ótta við COVID 19-faraldurinn skyldu ekki fleiri en 1.000 menn vera við bænir í moskunni á hverjum tíma. Fjöldi manna lagði bænamottur sínar fyrir utan Ægisif þegar þeir komust ekki inn í húsið.
Flokkur Erdogans fer ekki lengur með meirihluta í Istanbul eins og þegar hann var borgarstjóri þar. Stjórnarandstöðuflokkur Erdogans stjórnar borginni og trúr stefnu sinni er hann andvígur afhelguninni á Ægisif, flokkurinn vill ekki að landinu sé stjórnað í krafti stjórnmála og trúmála.
Grikkir eru í rétttrúnaðarkirkjunni. Vegna afhelgunar Ægisif og fyrsta bænahaldsins þar lýsti Kyriakos Misotakis, forsætisráðherra Grikklands, hrygð sinni í boðskap til þjóðar sinnar og trúbræðra. Hann sagði að Tyrkir sýndu ekki styrk með því að gera Ægisif að bænahúsi heldur veikleika.
UNESCO óttast að ákvörðun Erdogans verði til þess að spilla enn frekar sambúð Grikkja og Tyrkja.
Tugir þúsunda karla og kvenna biðu eftir bænakallinu frá moskunni og voru margir langt að komnir. Mikil öryggisgæsla var við tangann þar sem Ægisif stendur og þurfti lögregla að beita valdi til að halda mannfjöldanum í skefjum. Hópar karla veifuðu tyrkneskum fánum og hrópuðu: Allahu Akbar! (Guð er mestur).
BBC ræddi við 45 ára konu sem sagði að sér hefði alltaf líkað vel við Ægisif sem safn en henni hefði þó fundist byggingin „köld“. Nú væri rétti tíminn fyrir Tyrki til að árétta sjálfstæði sitt. „Frá því að við vorum börn höfum við beðið eftir þessu augnabliki,“ sagði hún.
Í nýlegri könnun sögðu 43% aðspurðra að þessar ákvarðanir um nýtt hlutverk fyrir Ægisif væru teknar til að beina athygli frá efnahagsvanda þjóðarinnar.