
Forystumenn ungliðasamtaka nokkurra danskra stjórnmálaflokka birtu laugardaginn 8. febrúar sameiginlega grein í Jyllands-Posten þar sem varað er við því að Vesturlandabúar láti undan ofstjórnarþörf kínverskra ráðamanna sem birst hafi í Hong Kong og í Xinjiang-héraði í Kína þar sem um milljón múslimar hafi verið skikkaðir til að dveljast í innrætingarbúðum á vegum kínverskra kommúnista og stunda nauðungarvinnu sem þrælar. Minnt er á að Kína sé nú mesta einræðisríki heims og samhliða því sem efnahagslegt vald Kínverja aukist sýni stjórnvöld Kína sífellt meira tillitsleysi bæði á alþjóðavettvangi og gagnvart eigin borgurum.
Þessu hafi menn kynnst í Danmörku eftir að birtar voru leynilegar upptökur þar sem heyra mátti hvernig sendiherra Kína í Danmörku reyndi að ógna færeyskum stjórnvöldum til að þau samþykktu kínverska 5G-háhraðanetið.
Minnt er á ósæmilega sjálfsritskoðun utan Kína til að þóknast yfirvöldum þar eins og þegar Daryl Morey, liðsstjóri körfuknattleiksliðsins Houston Rockets í Texas, varð að biðjast afsökunar á að hafa lýst stuðningi við mótmælendur í Hong Kong á Twitter-síðu sinni. Síðan hafi aðrir körfuboltamenn birst á sjónvarpsskjáum og grátbeðið um að fá að sjást aftur í kínverska ríkissjónvarpinu.
Greinarhöfundar segja að þessi framganga körfuboltamanna sé ekkert einsdæmi. Um heim allan leitist flugfélög, hótelkeðjur og bílaframleiðendur auk tæknifyrirtækja að haga boðskap á heimasíðum sínum þannig að fyrirtækin falli ekki í ónáð í Kína. Afleiðingarnar séu skýrar, sjálfsritskoðunin festist í sessi á Vesturlöndum, víðar en nokkru sinni fyrr.
Rifjað er upp að árið 2009 hafi Danir fundið fyrir refsivendi Kínverja eftir að Lars Løkke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra, ákvað að hitta Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta. Dönsk fyrirtæki í Kína guldu þessa. Danska þingið „kaus að leggjast flatt og tilkynna Kínverjum að Danmörk væri nú opinber andstæðingur frjáls Tíbets,“ segja greinarhöfundar.
Síðan hafi stefna danskra stjórnvalda gagnvart Kína einkum verið reist á að vernda „pandadiplomati“ og útflutningi á svínakjöti.
„Ef við viljum verja frelsi okkar og heilindi verða Danir að móta nýja og virkari Kína-stefnu. Við eigum að þora að taka afstöðu til viðbragða við vaxandi áhrifum stærsta einræðisríkis heims, hvar við setjum mörkin og segjum hingað og ekki lengra. Það er mikilvægt fyrir frjálsa heiminn og baráttuna fyrir lýðræði, tjáningarfrelsi og mannréttindum,“ segir í lok greinarinnar.