Home / Fréttir / Forstjóri þýsku leyniþjónustunnar varar við ógn af hervæðingu Rússa

Forstjóri þýsku leyniþjónustunnar varar við ógn af hervæðingu Rússa

Bruno Kahl, forstjóri þýsku leyniþjónustunnar, BND.
Bruno Kahl, forstjóri þýsku leyniþjónustunnar, BND.

Bruno Kahl, forstjóri BND, þýsku leyniþjónustunnar, sagði í ræðu á þingi sagnfræðinga á vegum Hanns Seidel stofnunarinnar í München miðvikudaginn 15. nóvember að frekar bæri að líta þannig á Rússa að þeir væru „hugsanlegir ógnvaldar“ en samstarfsaðilar í þágu evrópsks öryggis.

Hann sagði að viðbragðsstig rússneska hersins væri hærra en ætlað hefði verið. Hann telur að árið 2020 hafi Rússar lokið við að endurnýja 70% af herafla sínum. Reisir hann þetta mat á Zapad-heræfingunni sem efnt var til síðsumars.

Kahl sagði að hvorki NATO né þýsk stjórnvöld gætu litið fram hjá þessari þróun og lýsti yfir: „Ekki er lengur unnt að líta á frið í Evrópu sem örugga staðreynd“.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) lýsir ummælum Brunos Kahls sem „dramatískum“.

Zapad-heræfingin var af mestum þunga við landamæri Eystrasaltsríkjanna en hún teygði sig einnig til rússneska Norðurflotans á Kóla-skaga og út á Noregshaf. Sagði Kahl að æfingin sýndi að rússneski herinn væri öflugri en áður hefði sést.

Hann taldi einnig að Kremlverjar stefndu að því að verða leiðandi afl á meginlandi Evrópu. „Liður í því er að veikja ESB og ýta Bandaríkjamönnum til baka en þó einkum að reka fleyg á milli þessara aðila. Til að segja þetta skýrt: Í stað þess að Rússar séu samstarfsaðilar um evrópskt öryggi eru þeir hugsanlegir ógnvaldar. Rússar eru komnir til baka sem pólitískir leikendur á svið alþjóðamála – og þeir verða óþægilegir nágrannar.“

DW segir að ræða Kahls sé óvenjulegur boðskapur embættismanns sem örsjaldan lýsi afstöðu sinni opinberlega. Hann sagði að höfuðmáli skipti að leyniþjónustur Þýskalands og annarra Evrópuríkja ættu náið samstarf við samstarfsaðila sína í Bandaríkjunum.

„Sem forstjóri BND vil ég segja að samvinnan við bandarískar leyniþjónustustofnanir á mikinn þátt í því sem við fáum áorkað,“ sagði Kahl og minnti síðan á Bandaríkjamenn væru eina þjóðin sem héldi úti herafla á þeim stöðum sem hefðu mest geopólitískt gildi: Austur-Evrópu, Persaflóa og Austur-Asíu.

Bandaríkjamenn eiga „10 flugmóðurskip sem senda má til alþjóðlegra átakasvæða með skemmsta fyrirvara,“ sagði Kahl. Bandaríkjamenn eru einnig með um 34.000 hermenn í Þýskalandi sem „sýnir hve öryggistengslin eru sterk milli stjórnvalda í Berlín og Washington,“ bætti hann við. „Evrópumenn verða að eiga samstarf við Bandaríkjamenn til að geta skapað trúverðugt mótvægi gegn Rússum á austurvæng Evrópu á næstu árum,“ sagði forstjóri þýsku leyniþjónustunnar, BND.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …