Home / Fréttir / Forstjóri MI6 segir Rússum að halda sér á mottunni

Forstjóri MI6 segir Rússum að halda sér á mottunni

Alex Younger, forstjóri MI6.
Alex Younger, forstjóri MI6.

Forstjóri bresku leyniþjónustunnar, MI6, hefur varað rússneska ráðamenn við að vanmeta gagnaðgerðir Vestmanna eftir eiturefnaárás á fyrrverandi rússneskan njósnara sem lék tveimur skjöldum áður en hann fluttist til Englands.

Alex Younger, forstjóri MI6, boðaði þetta í ræðu sem hann flutti mánudaginn 3. desember. Ræðan vakti sérstaka athygli ekki aðeins vegna efnis hennar heldur einnig þess að mjög sjaldgæft er að forstjórinn tali á opinberum vettvangi. Hann hefur gegnt forstjórastarfinu í fjögur ár og er þetta í annað sinn á þeim tíma sem hann flytur ræðu fyrir opnum tjöldum.

Í máli sínu lagði forstjórinn áherslu á að Rússar hefðu stofnað til „endalausra árekstra“ við Vestmenn. „Fyrir tilstilli rússneska ríkisins var beitt hernaðarlegum eiturefnum á bresku yfirráðasvæði,“ sagði Younger við námsmenn í St. Andrews-háskólanum í Skotlandi. Hann útskrifaðist þaðan áður en hann gekk í breska herinn og síðan til liðs við MI6.

„Við viljum að stjórnendur rússneska ríkisins átti sig á því að það er  ekki áhættunnar virði fyrir þá að grípa til slíkra aðgerða hvað sem þeir halda að þeir geti haft upp úr þeim.“ sagði Younger.

„Ég hvet stjórnendur Rússa eða nokkurrar annarrar þjóðar sem hafa í hyggju að grafa undan samfélagsháttum okkar til að vanmeta ekki staðfastan vilja og getu okkar og bandamanna okkar. Við ætlum ekki að eyðileggja stöðugleika í Rússlandi.“

Forstjórinn sagði að óhefðbundnar „blandaðar ógnir“ steðjuðu að þjóðaröryggi Breta. Þar mætti nefna netárásir, dreifingu falsfrétta og íhlutun í innanríkismál. Ekki dygði lengur að treysta á aðferðir sem beitt hefði verið í tveimur heimsstyrjöldum, kalda stríðinu og eftir 9/11 hryðjuverkaárásina árið 2001.

Andstæðingar Breta vildu láta reyna á viðnámsþrótt breskra stofnana og varna með aðferðum sem ekki væri unnt að kenna við hefðbundin hernaðarátök. Til að bregðast við þessu yrði MI6 að „stilla saman“ upplýsingum sem fengjust frá mönnum á staðnum og upplýsingum sem aflað væri með gervigreind og sífellt háþróaðri tækni.

Tilgangur Younger með ræðunni er að höfða til ungs fólks og hvetja það til að ganga til liðs við MI6 því að nú sé þörf á fólki sem nálgast viðfangsefnið á annan veg en frægasti MI6-njósnari allra tíma, James Bond.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …