
Forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA sló miðvikudaginn 20. júlí á sí endurtekinn orðróm um að Vladimir Pútin Rússlandsforseti væri alvarlega veikur, ef til vill af krabbameini. Sagði hann að almennt væri Pútin „of heilbrigður“.
CIA-forstjórinn, William Burns, sagði þetta á öryggismálaráðstefnu í Aspen í Colorado-ríki í Bandaríkjunum. Hann sagði skoðun sína ekki reista á „formlegri niðurstöðu leyniþjónustunnar“ heldur sinni eigin þekkingu á Rússlandi þar sem Burns var sendiherra frá 2005 til 2008.
Fréttaskýrendur segja að við þetta sljákki örugglega í þeim andstæðingum Pútins sem hafi vonað að hann væri að deyja úr óupplýstum sjúkdómi.
Burns sagði að skoðanir Pútins á Úkraínu og einkum á afstöðu Úkraínumanna yrði á þá ráðist væru reistar á „einhverju ákaflega gölluðu mati“.
„Pútin trúir eigin málflutningi og ég hef heyrt hann segja þetta árum saman í einkasamtölum, að Úkraína sé í raun ekkert land. Hann telur að hann hafi rétt á, Rússar hafi rétt á að ráða yfir Úkraínu,“ sagði Burns.
CIA-forstjórinn sagði að um 15.000 rússneskir hermenn hefðu fallið í stríðinu um 45.000 særst. Taldi hann þetta „all verulegt“ mannfall.
Hann sagði Úkraínumenn ættu einnig um sárt að binda, mannfallið væri líklega eitthvað minna hjá þeim en umtalsverður fjöldi fólks vær særður.
Burns sagði að rússneski herinn hefði lagað sig verulega að aðstæðum eftir mistök í upphafi innrásarinnar. Einn frá Úkraínu sem hann hitti hefði sagt: „Allir heimsku Rússarnir eru dauðir.“ Í orðunum fælist að þeir hefðu goldið með lífi sínu sem gerðu mistök í upphafi en nú gengju Rússar fram á annan hátt.
Rússneska herliðið hefði einbeitt sér að Donbas-svæðinu í austri nú i 90 daga og hreyfst fram um innan við 20 km á þessum tíma.
„Þetta er mjög dýrkeypt og ákaflega sársaukafullt fyrir báða aðila,“ sagði hann.