Home / Fréttir / Forstjóri bresku leyniþjónustunnar varar við vaxandi ágengni og áróðri Rússa, einkum í netheimum

Forstjóri bresku leyniþjónustunnar varar við vaxandi ágengni og áróðri Rússa, einkum í netheimum

 

Andrew Parker
Andrew Parker forstjóri MI5

Í fyrsta sinn í 107 ára sögu bresku leyniþjónustunnar MI5 hefur forstjóri hennar veitt blaðamanni viðtal. Rætt er við forstjórann, Andrew Parker, í blaðinu The Guardian og birtist viðtalið þriðjudaginn 1. nóvember. Meginboðskapur hans er að ekki sé unnt að líta fram hjá tilraunum Rússa til að grafa undan stöðugleika í Bretlandi og þeir noti öll þaulhugsuðu tólin sem séu í þeirra höndum til að ná þessu marki. Hér sé um vaxandi hættu að ræða hvað sem líði áherslu leyniþjónustunnar á að fylgjast með íslömskum öfgahópum.

„Rússar beita margvíslegum ríkisstofnunum og aðstöðu ríkisins til að fylgja eftir utanríkisstefnu sinni á æ ágengari hátt erlendis – beitt er áróðri, njósnum, undirróðri og tölvuárásum. Rússar eru að alls staðar í Evrópu og í Bretlandi um þessar mundir. Það er hlutverk MI5 að sporna gegn þessu.“

Parker segir að Rússar haldi mörgum njósnurum úti í Bretlandi. Það sem breyst hafi frá því í kalda stríðinu megi rekja til þróunar í tölvu- og upplýsingtækni, nú sé háð netheimastríð (cyberwarfare). Rússar reyni að komast yfir hernaðarleyndarmál, áform á sviði atvinnulífsins, upplýsingar um efnahagsmál og stjórnmál, innanríkismál og utanríkismál.

Í viðtalinu segir Andrew Parker:

  • Öryggisstofnanir ríkisins hafa undanfarin þrjú ár komið í veg fyrir 12 hryðjuverk á vegum vígamanna íslamista.
  • Skráning og skilgreining á heimavanda Breta leiðir í ljós að í landi þeirra eru um 3.000 „ofbeldisfullir íslamiskir öfgamenn“ einkum breskir.
  • Með auknum fjárveitingum fjölgar starfsmönnum MI5 frá 4.000 til 5.000 næstu fimm ár.
  • Ný lög í Bretlandi veita MI5 ekki of miklar rannsóknarheimildir.
  • Úrsögn Breta úr ESB hefur engin áhrif á samvinnu þeirra við evrópskar leyniþjónustur.

Um afstöðu Rússa segir Parker:

„Rússar leggja vaxandi áherslu á að skilgreina sig sem andstæðinga Vesturlanda og virðast haga sér í samræmi við það. Þetta birtist í verki í framgöngu Rússa í Úkraínu og Sýrlandi. Margt sést þó alls ekki og má þar nefna gífurlega athafnasemi og ógnir í netheimum. Í áratugi hefur leynd ógn stafað frá Rússum. Nú eru aðstæður aðrar en áður vegna þess að aðferðunum til að hafa áhrif fjölgar ört.“ þá

Til skýringar:

MI5 og MI6 (SIS, Secret Intellegent Service) eru breskar njósna- eða leyniþjónustustofnanir sem gegna mismunandi hlutverki.

MI5 ber að gæta öryggis Bretlands, borgara landsins og hagsmuna, heima og erlendis. SIS aflar upplýsinga utan Bretlands í þágu ríkisstjórnarinnar til að auðvelda henni ákvarðanir um öryggismál, varnarmál og mótun stefnu í utanríkis- og efnahagsmálum.

MI5 heyrir undir innanríkisráðherrann og SIS heyrir undir utanríkisráðherrann.

Höfuðstöðvar MI5 eru í Thames House, London. Höfuðstöðvar SIS eru við Vauxhall Cross, London.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …