Home / Fréttir / Forseti Úkraínu segist í „raunverulegu stríði“ við Rússa

Forseti Úkraínu segist í „raunverulegu stríði“ við Rússa

Petro
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu.

 

 

 

 

Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, segist ekki treysta Vladimír Pútín Rússlandsforseta og segir ríkin tvö eiga í „raunverulegu stríði“. Ummælin féllu í samtali við fréttamann BBC miðvikudaginn 20. maí og hafa kallað fram andmæli frá talsmanni Pútíns.

Porosjenko sagði að margir vildu líta fram hjá þeirri staðreynd að fólk félli í valinn vegna ástandsins í landinu. Það væri mjög mikil ógæfa fyrir ráðamenn í höfuðborginni Kænugarði að eiga í stríði við borgara eigin lands.

Hann sagði að viðurkenna yrði að Úkraínumenn ættu í „raunverulegu stríði“ við rússneska ríkið en ekki aðeins aðskilnaðarsinna innan eigin landamæra í austurhluta Úkraínu.

Forsetinn sagði að hann ætti engra annarra kosta völ en ræða um lausn mála við Pútín þótt hann treysti honum ekki. „Ég held ekki að tökunum á landi mínu verði sleppt vegna hernaðarlegra aðgerða,“ sagði hann.

Þriðjudaginn 19. maí sýndu stjórnvöld Úkraínu myndbrot sem sýndu tvo menn sem sagðir voru úr sérsveitum Rússa. Þær voru teknar um helgina í Lugansk, á svæði aðskilnaðarsinna í austri. Stjórnvöldin segja að þetta sanni að Rússar standi að baki þeim sem vinni að því að splundra ríkinu. Þessu er harðlega mótmælt í Moskvu.

Rúmlega 6.200 manns hafa fallið í valinn í Úkraínu og rúmlega milljón manns eru á hrakhólum.

Stjórnarandstæðingar í Rússlandi birtu í síðustu viku skýrslu þar sem fullyrt er að meira en 200 rússneskir hermenn hafi fallið í Úkraínu frá ágúst 2014. Þar segir einnig að rússnesk stjórnvöld hafi varið meira en milljarði dollara til átakanna aðeins á síðasta ári.

Hér er um að ræða skýrslu sem er reist á rannsóknum sem Boris heitinn Nemtsov andófsmaður stjórnaði en hann var myrtur skammt frá Kreml fyrr á árinu.

Hinn 49 ára gamli Porosjenko sagði að hann hefði ekki aðeins áhyggjur af  stríðinu í Úkraínu heldur væri hann einnig mjög hugsi yfir spillingarmálum. Sjálfur er forsetinn einn af milljarðamæringum landsins og lýsti hann áhuga sínum á að gegnsæi yrði eins mikið og frekast mætti innan stjórnsýslunnar. Aðeins á þann hátt tækist að rækta samband við fjárfesta, öðlast traust þeirra og annarra samstarfsaðila. Hann sagði ekki unnt að einblína á stríðið í austri heldur yrði að huga að einu mikilvægasta stríði í landi hans: stríðinu við spillingu.

Hann sagði lokamarkmið sitt að Úkraína yrði aðili að Evrópusambandinu þegar fram liðu stundir.

Heimild: Deutsche Welle

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …