Home / Fréttir / Forseti Úkraínu segir samhug milli eigin þjóðar og Finna vegna reynslu á ytri ógn

Forseti Úkraínu segir samhug milli eigin þjóðar og Finna vegna reynslu á ytri ógn

Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands.
Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands.

Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, segir að samhugur sé milli stjórnvalda í Úkraínu og Finnlandi vegna sameiginlegrar reynslu þeirra, nefnir hann þar á meðal ytri ógn. Úkraínuforseti hitti Sauli Niinistö, forseta Finnlands, í Helsinki þriðjudaginn 24. janúar og ræddu þeir deilur Úkraínumanna og Rússa og framkvæmd Minsk-friðarsamkomulagsins auk þess sem fjallað var um stöðuna á Eystrasalti.

„Finnar geta sett sig í spor Úkraínumanna sem standa frammi fyrir blendingshernaði af hálfu Rússa,“ sagði Porosjenkó á blaðamannadundi í embættisbústað Niinistös forseta þriðjudaginn 24. janúar.

Porosjenkó sagði að þetta mætti rekja til þess að báðar þjóðirnar hefðu reynslu af því að mega þola ytri ógn.

Úkraínuforseti sagði að Finnar ættu að gæta sín á áformunum um að leggja nýja gasleiðslu frá Rússlandi um Eystrasalt til Þýskalands, Nordstream II. Komi leiðslan til sögunnar draga Rússar mjög úr flutningi gass í leiðslum um Úkraínu.

Porosjenkó sagði að ákveðið hefði verið að þjóðirnar stilltu saman krafta sína til að verjast netglæpum.

Niinistö ítrekaði stuðning Finna við óskertan landsyfirráðarétt Úkraínumanna og sjálfstæði þeirra, hann fordæmdi ólögmæta innlimun Krímskaga í Rússland.

Porosjenkó sagði að embættistaka Donalds Trumps hefði engin áhrif á stuðning Bandaríkjamanna við Úkraínu. Ekkert væri því til fyrirstöðu að hverfa frá efnahagsþvingunum stæðu menn við Minsk-samkomulagið. „Allt er undir Rússum komið,“ sagði forsetinn.

Niinistö sagðist ekki trúa því að Bandaríkjamenn tækju til við að breyta um stefnu og aflétta þvingunum í garð Rússa. Hann benti jafnframt á að Bandaríkjamenn hefðu innleitt eigin þvinganir og ESB sínar án órjúfanlegra tengsla við þær bandarísku.

„Finnland er í ESB og þess vegna virðum við ákvarðanir ESB sem við höfum einnig átt þátt í að móta,“ áréttaði Niinistö.

Í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE af blaðamannafundi forsetanna segir að með Minsk-samkomulaginu hafi átt að koma á friði í Úkraínu en það hafi að mestu reynst árangurslaust og aðilar virði ekki vopnahléð sem gert var milli aðskilnaðarsinna í skjóli Rússa og stjórnvalda í Úkraínu.

Af hálfu Sameinuðu þjóðanna er talið að milli 6.000 og 7.000 almennir borgarar hafi fallið í átökum í Úkraínu. Í heild hafi vargöldin þó grandað 9.800 manns og um 23.000 hafi særst.

Heimild: YLE

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …