Home / Fréttir / Forseti rússneska þingsins sakar Bandaríkjastjórn um ögranir og aðför að efnahag Rússlands

Forseti rússneska þingsins sakar Bandaríkjastjórn um ögranir og aðför að efnahag Rússlands

sergei-naryshkin-US
Sergei Narjíshkin, forseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar.

 

Sergei Narjíshkin, forseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, birti mánudaginn 10. ágúst grein í blaðinu Rossiiskaja Gazeta þar sem hann sakar Bandaríkjastjórn um að leggja á ráðin um „ögranir“ í garð Rússa og tilraunir til að gera landið gjaldþrota.

Þingforsetinn ræðst á Bandaríkin fyrir tillögu um að koma á fót alþjólegum dómstóli til að sækja þá til saka sem báru ábyrgð á að skjóta niður farþegavél Malaysia Airlines yfir Úkraínu í júlí 2014. The Moscow Times segir að greinin sé enn eitt dæmið um and-bandarískan málflutning rússneskra ráðamanna en  spenna í samskiptum ríkjanna hafi magnast stig af stigi síðan árekstrarnir vegna Úkraínu komu til sögunnar í fyrra.

Fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa legið drög að tillögu frá fimm ríkjum, Ástralíu, Belgíu, Hollandi, Malasíu og Úkraínu um að alþjóðleg rannsókn fari fram á flugslysinu en rússneski þingforsetinn segir að Bandaríkjastjórn standi að baki flutningi hennar.

Rússar hafa beitt neitunarvaldi gegn tillögunni um sérstakan dómstól en „höfuðpaurinn, Bandaríkin, – um það þarf enginn að efast – vill ekki láta málið liggja,“ segir Narjíshkin.

Eftir að Rússar beittu neitunarvaldi sínu hétu ríkin fimm því að leita annarra leiða til að koma á fót sjálfstæðum, alþjóðlegum rannsóknardómstóli.

„Með því að beita neitunarvaldi sínu hafa Rússar í raun bjargað virðingu öryggisráðsins þar sem það hefði verið augljóslega misráðið og ólögmætt að stofna slíkan dómstól,“ segir þingforsetinn í grein sinni.

Hann beinir spjótum sínum einnig að ákvörðun Bandaríkjastjórnar og bandamanna hennar um að beita Rússa viðskiptaþvingunum eftir að Krím var innlimað í Rússland og vegna stuðnings Rússa við aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Hann segir að Bandaríkjastjórn vilji koma Rússum á kaldan klaka:

„Spyrja má: hvert er lokamarkmið Bandaríkjamanna? Svarið er hið sama: erlendar skuldir þeirra eru risavaxnar og það er vani þeirra að setja önnur ríki á hausinn.

Ég held að Bandaríkjastjórn muni halda áfram að breyta fólki í dauðyfli með röngum upplýsingum, með því að láta allt sem þeir segja hljóma eins og staðreyndir og með því að skapa nýjar átyllur til að kynda undir and-rússneskar tilfinningar í Evrópu.“

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …