Home / Fréttir / Forseti Póllands segir skammarlegt að forystumönnum pólskra kommúnista hafi ekki verið refsað

Forseti Póllands segir skammarlegt að forystumönnum pólskra kommúnista hafi ekki verið refsað

 

Andrzej Duda, forseti Póllands, flytur ávarp við minningarathöfnina í Gdinya.
Andrzej Duda, forseti Póllands, flytur ávarp við minningarathöfnina í Gdynia 17. desember 2015.

Andrzej Duda, forseti Póllands, segir „skammarlegt“ að ekki hafi verið gripið til refsinga á forystumönnum pólskra kommúnista eftir árið 1989 þegar pólska þjóðin losnaði úr fjötrum kommúnismans. Forsetinn lét þessi orð falla fimmtudaginn 17. desember við minningarathöfn í Gdynia í Norður-Póllandi vegna þess að 45 ár eru liðin frá því að lögregla og hermenn felldu verkamenn í borginni.

Hið minnsta 44 menn voru drepnir og þúsundir særðir þegar lögreglumenn og hermenn hófu skothríð á verkamenn sem efndu til mótmæla í Gdynia og nágrenni við strönd Eystrasaltsins í desember árið 1970.

Duda sagði að „allir heiðarlegir Pólverjar“ gætu ekki annað en skammast sín fyrir að þeim sem báru ábyrgð og hann kallaði „bandítta kommúnista“ skyldi aldrei hafa verið refsað og bætti við: „Þegar þeir sem stóðu að glæpaverkinu árið 1970 voru jarðsettir stóðu hermenn heiðursvörð og ríkið vottaði þeim virðingu.“

Duda hét því að gera allt í sínu valdi til að endurbæta lýðveldið „svo að það verði að lokum réttlátt, sanngjarnt ríki“.

Stanislaw Kociolek, leiðtogi pólskra kommúnista árið 1970, hefur setið undir ákæru í réttarhöldum árum saman en var sýknaður árið 2013 þótt í dóminum segði að ákvörðunin um að heimila notkun skotvopna hefði verið „ólögmæt og glæpsamleg“. Málinu var áfrýjað en Kociolek andaðist árið 2015 áður en það var leitt til lykta.

Í frétt pólska útvarpsins segir að örlög forystusveitar kommúnista í Póllandi veki enn miklar deilur í landinu. Kommúnistastjórnin beitti sér árið 1989 fyrir svonefndum „hringborðsumræðum“ þar sem fulltrúar hennar ræddu við fulltrúa frá verkalýðshreyfingunni Samstöðu. Ýmsir telja að þessar umræður hafi lagt grunninn að friðsamlegri byltingu í landinu. Gagnrýnendur umræðnanna telja hins vegar að fyrrverandi kommúnistar hafi aldrei verið látnir sæta ábyrgð á viðunandi hátt.

Andrzej Duda var kjörinn forseti í maí 2015 og 25. október vann hinn íhaldssami Laga- og réttlætisflokkur þingkosningar í landinu. Flokkurinn hefur jafnan unnið að því að ýta fyrrverandi kommúnistum og uppljóstrurum leynilögreglu þeirra fyrir 1989 úr opinberum störfum í Póllandi.

Heimild: Pólska útvarpið

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …