Home / Fréttir / Forseti Kína vill minni spennu – Japanir setja upp eldflaugavarnarflaugar

Forseti Kína vill minni spennu – Japanir setja upp eldflaugavarnarflaugar

Patriot eldflaugavarnarflaugar settar upp í Japan.
Patriot eldflaugavarnarflaugar settar upp í Japan.

Xi Jinping, forseti Kína, sagði í símtali við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, laugardaginn 12. ágúst að Bandaríkjamenn og Norður-Kóreumenn ættu að minnka spennuna vegna ágreinings um kjarnorkuáætlun N-Kóreumanna.

„Viðkomandi aðilar verða að halda aftur af sér og forðast orð og gerðir sem kunna að kynda undir spennu á Kóreuskaga,“ var haft eftir Xi í kínverskum ríkismiðlum laugardaginn 12. ágúst.

Xi hafði símasamband við Trump eftir að Bandaríkjaforseti herti á hernaðarlegum hótunum sínum í garð Norður-Kóreumanna föstudaginn 11. ágúst. Þá gaf Trump til kynna að Bandaríkjamenn hefðu- „hlaðið byssur“ sínar og sagði að Kim jong-un, harðstjóri N-Kóreu, mundi iðrast þess réðist hann á Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra.

Í tilkynningu frá Trump sagði að í símtalinu hefðu forsetarnir „áréttað gagnkvæma skuldbindingu sína um að af-kjarnorkuvæða Kóreuskaga“ og „sammælst um að Norður-Kóreumenn yrðu að binda enda á ögrandi og stigmagnandi framgöngu sína“.

Fréttir herma að Trump þyki meira en nóg um aðgerðarleysi Kínverja gagnvart nágrönnum sínum í N-Kóreu og getuleysi til að hafa stjórn á þeim.

Trump og Xi fögnuðu samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að herða refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu. Um þetta náðist samstaða í ráðinu í fyrri viku þegar Kínverjar studdu tillögu Bandaríkjamanna um að beita N-Kóreumenn auknum þrýstingi á þennan hátt.

Japanir tóku laugardaginn 12. ágúst að setja upp eldflaugavarnarkerfi sitt eftir að N-Kóreumenn höfðu hótað að senda eldflaugar yfir land þeirra með boðaðri árás á bandarísku Kyrrahafseyjuna Guam.

Japanska varnarmálaráðuneytið sagði að um væri að ræða eldflaugar af Patriot-gerð (PAC-3) og yrðu þær í Shimane, Hiroshima og Kochi í vesturhluta Japans.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …