Home / Fréttir / Forseti héraðsstjórnar Katalóníu segir leiðina til sjálfstæðis hafa verið opnaða

Forseti héraðsstjórnar Katalóníu segir leiðina til sjálfstæðis hafa verið opnaða

Carles Puigdemont
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, segir leiðina til sjálfstæðis opna.

Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu á Spáni, segir að héraðið hafi áunnið sér sjálfstæð ríkisréttindi að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sunnudaginn 1. október. Valdi var beitt af lögreglu til að framfylgja kröfu spænsku ríkisstjórnarinnar um að farið yrði að niðurstöðu stjórnlagadómstóls Spánar um að atkvæðagreiðslan bryti í bága við stjórnarskrá Spánar.

Puigdemont segir að nú hafi verið opnuð leið til einhliða yfirlýsingar um sjálfstæði þar sem embættismenn segi að tæplega 90% þeirra 42,3% sem greiddu atkvæði hafi viljað sjálfstæði. Alls greiddu 2,26 milljónir manna af 5,3 milljónum á kjörskrá atkvæði. Talsmaður yfirvalda í Katalóníu segir að ekki hafi verið unnt að telja rúmlega 750.000 atkvæði vegna þess að kjörstöðum var lokað og kjörkassar gerðir uppækir.

„Á þessum degi vonar og þjáninga hafa íbúar Katalóníu áunnið sér rétt til að stofna sjálfstætt ríki undir merkjum lýðveldis,“ sagði Puigdemont í sjónvarpsávarpi.

Heilbrigðisyfirvöld í Katalóníu segja að 844 einstaklingar hafi slasast í átökum við lögreglu á kjördag.  Lögreglumenn reyndu að hindra fólk sem ætlaði að fara á kjörstaði, þá brutust þeir inn á kjörstaði og beittu kylfum og gúmmíkúlum gegn mótmælendum. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, færði lögreglunni þakkir í sjónvarpi að kvöldi sunnudags 1. október og hafnaði því að Katalóníumenn hefðu gengið til atkvæða um sjálfstæði sitt.

Kannanir hafa sýnt að milli 40 og 50% íbúa í Katalóníu vilja sjálfstæði héraðsins. Sumir saka stjórnmálamenn í Katalóníu um að skipuleggja þjóðaratkvæðagreiðsluna til að auka stuðning við sjálfstæðissinna og snúast gegn minnkandi stuðningi við sjálfstæði.

Sjálfstæðisþráin hefur lifað í Katalóníu í meira en 500 ár sem héraðið hefur verið hluti Spánar, þar hafa íbúarnir viðhaldið eigin tungu og menningu. Á einræðisárum Francos 1939 til 1975 voru Katalóníumenn oft beittir harðræði. Núgildandi stjórnarskrá Spánar er frá árinu 1978 og veitir hún héraðinu nokkra sjálfstjórn. Yfirvöld í Katalóníu hafa ekki heimild til innheimta eigin skatta eins og stjórnvöld Baskalands hafa til dæmis leyfi til að gera.  Krafan um að stærri hlutdeild í sköttum sem innheimtir eru í héraðinu renni í sjóði þess varð háværari eftir að Spánverjar urðu fyrir þungu höggi í fjármálakreppunni árið 2008.

Viðbrögð SÞ

Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði mánudaginn 2. október að honum stæði síður en svo á sama um hörkulega aðgerðir lögreglunnar í Katalóníu. Hvatti hann stjórnvöld í Madrid að láta kanna á sjálfstæðan og óhlutdrægan hátt allar ásakanir um ofbeldi. Lögreglan yrði ávallt að beita valdi sínu af nauðsyn og í samræmi við aðstæður.

Viðbrögð ESB

Framkvæmdastjórn ESB hvatti til þess mánudaginn 2. október að allir aðilar sem ættu í illdeilum vegna atkvæðagreiðslunnar í Katalóníu tækju „mjög fljótt“ að ræða saman. Í fyrstu yfirlýsingu sinni að lokinni atkvæðagreiðslunni og átökunum vegna hennar sagði framkvæmdastjórnin að atkvæðagreiðslan væri „ekki lögleg“ samkvæmt spænskum lögum og hún væri „innra mál“ Spánverja.

Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði að öðlaðist Katalónía sjálfstæði í löglegri atkvæðagreiðslu yrði ríkið að hverfa úr ESB.

„Hvað sem líður lagalegri hlið málsins telur framkvæmdastjórnin að á líðandi stundu beri að leggja áherslu á einhug og stöðugleika, ekki sundrung og uppbrot,“ sagði Schinas. Ofbeldi skilaði aldrei árangri í stjórnmálum.

„Við berum traust til forystu Marianos Rajoys forsætisráðherra og hann geti leitt þetta erfiða ferli með fullri virðingu fyrir stjórnarskrá Spánar og þeim grundvallarmannréttindum sem þar er að finna,“ sagði Schinas í yfirlýsingu sinni.

Spænska stjórnin sagði mánudaginn 2. október að hún mundi gera „allt sem lög leyfa“ til að koma í veg fyrir að lýst verði yfir sjálfstæði Katalóníu,

Schinas sagði í Brussel: „Spænska stjórnarskráin segir að atkvæðagreiðslan í Katalóníu í gær hafi verið ólögleg.“ Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefði hvað eftir annað ítrekað að þetta væri „innra mál“ Spánverja sem yrði að leysa í samræmi við spænsku stjórnarskrána.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …