
Frakkar og Rússar hafa samið um hvernig staðið skuli að uppgjöri vegna ákvörðunar Frakka um að standa ekki við samning sinni við Rússa um smíði tveggja þyrlumóðurskipa af Mistral-gerð. Deilur um uppgjörið hafa spillt samskiptum ríkjanna í nokkra mánuði.
François Hollande Frakklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti sömdu um uppgjörið. Að kvöldi miðvikudags 5. ágúst sendi skrifstofa Frakklandsforseta frá sér tilkynningu um að Frakkar væru „óskoraðir eigendur og hefðu fullan ráðstöfunarrétt“ á skipunum.
Í tilkynningunni segir að síðdegis þennan sama dag hafi forsetarnir „rætt saman til að staðfesta að Frakkar og Rússar hafi komist að samkomulagi um að binda enda á samkomulag sem ritað var undir árið 2011 um afhendingu á tveimur skipum til stjórnar og valdbeitingar (BPC) af gerðinni Mistral“.
Þá segir að Rússar fái fullar bætur í samræmi við greiðslur sem þeir hafi innt af hendi. Stjórnvöld í Moskvu hafa þegar greitt 800 milljónir evra af 1,2 milljarða samningnum.
Frakkar ákváðu í lok árs 2014 að slá afhendingu fyrra skipsins á frest um óákveðinn tíma. Vildi franska ríkisstjórnin ekki standa við samninginn vegna yfirgangs Rússa gagnvart Úkraínumönnum.