
Sauli Niimistö Finnlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hittust í Moskvu þriðjudaginn 22. mars og samþykktu að stöðva í 180 daga alla umferð annarra en ríkisborgara Finnlands, Rússlands og Hvíta-Rússlands og fjölskyldna þeirra yfir landamæri ríkjanna við Salla og Raja-Jooseppi.
Markmiðið er að koma í veg fyrir skipulagðar ferðir með fólk að landamærum Finnlands í því skyni að koma því á ólögmætan hátt inn á Schengen-svæðið sem flóttafólki og hælisleitendum.
Eftir að landamærum Noregs og Rússlands skammt frá Kirkenes í Norður-Noregi var lokað fyrir nokkrum mánuðum tóku hælisleitendur að streyma frá Rússlandi til Finnlands. Milli 1.500 og 2.000 manns fóru í janúar og febrúar á þessu ári ólöglega yfir landamærin í Salla og Raja-Jooseppi.
Þessum ferðum yfir landamærin lauk skyndilega 29. febrúar 2016 eftir að Pútín sagði á fundi með ráðamönnum rússnesku öryggislögreglunnar FSB að hert yrði eftirlit með straumi flóttamanna til Rússlands eða á leið um landið til Evrópulanda.
Á blaðamannafundi eftir fundinn með Finnlandsforseta sagði Pútín: „Eins og allir sjá skilar þetta árangri.“ Hann staðfesti einnig að ákvörðunin um að herða eftirlitið hefði verið tekin eftir að finnski forsetinn hringdi nokkrum sinnum til Kremlar og óskaði eftir ráðstöfunum af hálfu Rússa. Pútin áréttaði hins vegar að Rússar myndu ekki taka við þeim flótta- og farandmönnum sem þegar væru komnir til Finnlands um Rússland.
Í tilkynningu Finnlandsforseta um fundinn segir að forsetarnir hafi áréttað að viðskiptaþvinganir milli ESB og Rússlands hefðu minnkað viðskipti milli landa þeirra. Niinistö forseti sagði að það væri allra hagur að staðið yrði við Minsk-friðarsamkomulagið og þvingunum yrði aflétt. Á hinn bóginn yrði leitast við að efla efnahags- og viðskiptatengsl á sviðum sem féllu ekki undir þvinganirnar.