
Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði í símtali við Sauli Niinistö Finnlandsforseta miðvikudaginn 15. júlí að Finnar hefðu hlaupið á sig „lögfræðilega“ þegar þeir neituðu rússneskum þingmönnum að sitja þing Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Helskinki 5. til 9. júlí, hins vegar hefðu Finnar gert þetta undir þrýstingi frá öðrum ESB-ríkjum.
Rússlandsforseti sagði að hann vildi leggja rækt við vinsamleg samskipti við Finna þrátt fyrir deilurnar vegna ferðaheimildar fyrir rússnesku þingmennina.
Í frétt frá skrifstofu Rússlandsforseta sagði að Sauli Niinistö Finnlandsforseti hefði hringt til Pútíns miðvikudaginn 15. júlí og í símtalinu hefðu forsetarnir rætt tvíhliða samskipti í kjölfar deilunnar sem leiddi til þess að Rússar ákváðu að taka aðeins til málamynda þátt í 40 ára afmælisfundi Helsinki-sáttmálans með einum þingmanni sem sat hluta fundarins, að öðru leyti kölluðu rússnesk stjórnvöld þá sem fengu ferðaheimild til Moskvu í mótmælaskyni.
Í rússnesku fréttinni segir að Pútín hafi sagt Niinistö að ákvörðun finnskra stjórnvalda um að neita rússnesku sendinefndinni, þar á meðal Sergei Narjishkin, forseta neðri deildar þingsins, um vegabréfsáritun hafi verið „lögfræðilega gölluð“. Hún hafi hins vegar verið tekin undir „þrýstingi frá sumum aðilum ESB“ og vonaði hann að ytri atvik mundu ekki hafa áhrif á samskipti ríkjanna.
Finnar héldu því fram að rússnesku fulltrúarnir fengju ekki vegabréfsáritun af því að ESB hefði sett á þá ferðabann til að mótmæla íhlutun Rússa í málefni Úkraínu og innlimun Krímskaga í Rússland.
Í fréttinni frá Kreml sagði að forsetarnir hefðu lagt „áherslu á mikilvægi og nauðsyn samninganna frá heimsókn Niinistös til Moskvu hinn 16. júní 2015“. Þá sagði: „Forsetarnir skiptust einnig á skoðunum um brýnustu verkefni á alþjóðavettvangi, þar á meðal Úkraínu og niðurstöðu viðræðnanna í Vínarborg um kjarnorkuáætlun Írans.“
Samhljómur er milli talsmanna forseta Rússlands og Finnlands um að finnski forsetinn hafi hringt í hinn rússneska.
(Heimild: YLE)