Home / Fréttir / Forsetafrú N-Kóreu hampað í aðdraganda leiðtogafunda

Forsetafrú N-Kóreu hampað í aðdraganda leiðtogafunda

 

Forstahjón N-Kóreu koma á kínverska ballettsýningu í heumaborg sinni.
Forstahjón N-Kóreu koma á kínverska ballettsýningu í heumaborg sinni.

Kim Jong-un, einræðisherrra Norður-Kóreu, hefur veitt konu sinni titilinn „first lady“ eða forsetafrú. Sérfræðingar segja að í þessu felist mikil upphafning fyrir hana áður en kemur til leiðtogafundanna fyrst með forseta Suður-Kóreu föstudaginn 27. apríl og síðar með forseta Bandaríkjanna.

Í ríkisútvarpi Norður-Kóreu var vísað til Ri Sol-ju sem „virðlegrar forsetafrúar“ þegar sagt var frá því fyrir skömmu að hún hefði fylgst með kínverskri ballettsýningu í Pyongyang. Þessi titill hefur ekki verið notaður í Norður-Kóreu í meira en 40 ár.

Stjörnufréttaþula sjónvarps Norður-Kóreu, Ri Chun-hee, sem oft er kölluð á vettvang til að flytja meiriháttar opinberar tilkynningar, sagði frá för frúarinnar á ballettsýninguna, þótti það enn auka á virðingu hennar.

Ri er fyrrverandi söngstjarna og kom fyrst fram á sjónarsviðið sem opinber persóna árið 2012. Hefur hún síðan verið meira í sviðsljósinu en flestar aðrar konur í karlaveldinu sem Norður-Kórea er. Hlutverk hennar hefur hins vegar verið takmarkað.

Sérfræðingar segja að athyglin sem að henni er beint þjóni þeim tilgangi að sýna Norður-Kóreu sem „venjulegt ríki“ í aðdraganda leiðtogafunda Kims. Nú hefur hún sömu tignarstöðu og Kim Jung-sook, forsetafrú S-Kóreu, og Melania Trump.

Fram til þessa hefur verið vísað til Ri sem „félaga“ í fjölmiðlum Norður-Kóreu. Með því að kalla hana forsetafrú í tengslum við ballettsýninguna var titillinn notaður í fyrsta sinn síðan 1974 þegar hann  Kim Song-ae, seinni kona landsföðursins Kims Il-sungs, ávörpuð á þennan hátt.

Fortíð Ri er sveipuð hulu. Sagt er að hún sé 29 ára og eigi þrjú börn með Kim, þar af að minnsta kosti eina stúlku. Njósnastofnanir S-Kóreu telja að faðir hennar sé kennari og móðir hennar læknir. Hún sótti tónlistarskóla í Kína og heimsótti S-Kóreu árið 2005 sem klappstýra fyrir þátttakendur frá N-Kóreu í alþjóðlegu íþróttamóti.

Kim Jong-un hefur konu sína og systur, Yo Jong, oft með sér á opinberum vettvangi sem er nýlunda miðað við það sem gerðist í tíð afa hans og föður.

Þá er bent á að Kim kunni að vilja sýna minningu móður sinnar, Ko Yong-hui, virðingu með því að auka veg eiginkonu sinnar. Ko eignaðist þrjú börn með föður Kims og forvera hans, hún sást hins vegar lítið árin 28 sem þau voru gift.

Ko Yong-hui andaðist árið 2004, var sagt að brjóstakrabbi hefði verið banamein hennar. Hermt er að lík hennar hafi verið flutt með leynd til Pyongyang frá París þar sem hún leitaði sér lækninga. Það var ekki fyrr en á árinu 2012, eftir að Kim komst til valda, að henni var reist gröf.

Heimild: The Guardian

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …