Home / Fréttir / Forsætisráðherra Slóveníu vekur máls á stríðshættu vegna flóttamannastraumsins

Forsætisráðherra Slóveníu vekur máls á stríðshættu vegna flóttamannastraumsins

Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu
Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu

Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu, sagði á blaðamannafundi þriðjudaginn 3. nóvember að vandinn vegna aðkomufólks í Evrópu kynni að leiða til átaka að nýju milli lýðveldanna sem áður mynduðu Júgóslavíu og börðust sín á milli á tíunda áratugnum.

Hundruð þúsunda farand- og flóttafólks frá Sýrlandi, Írak, Afganistan og fleiri ríkjum hafa farið um Balkan-ríkin frá Grikklandi til vesturhluta Evrópu í ár. Vegna fólksstraumsins hefur reynt á innviði og fjárhag ríkjanna  sem mynda farveg straumsins og má þar nefna sérstaklega Makedóníu, Serbíu, Króatíu og Slóveníu.

Ástandið versnaði eftir að Ungverjar sem eru fyrsta Schenghen-þjóðin gagnvart fólksstraumnum Balkanskaga lokuðu suður landamærum sínum fyrir aðkomufólkinu 16. október 2015. Við það tóku um 135.000 manns stefnu í vestur frá Króatíu inn í Slóveníu.

Ásakanir hafa gengið á milli stjórnvalda ríkjanna um að þau láti undir höfuð leggjast að skrásetja flóttamenn á viðunandi hátt.

Reuters-fréttastofan hafði eftir Cerar;

„Verði vandinn vegna aðkomufólksins ekki leystur á viðunandi hátt í samræmi við niðurstöðu leiðtogafundarins í Brussel er hugsanlegt að átakaástand skapist milli Vestur-Balkanríkjanna.

Það er hugsanlegt að smáárekstur verði kveikjan að víðtækari viðbrögðum vegna þess hve nýleg saga [svæðisins] hefur verið einstaklega erfið, einmitt þess vegna er mjög mikilvægt að standa saman að lausn þessa vanda þar sem ekkert eitt ríki hefur afl til að leysa hann.“

Reuters rifjar upp að Cerar hafi áður flutt válegar viðvaranir. Á neyðarfundi ESB-ríkjanna hinn 26. október í Brussel sagði hann að ESB stæði frammi fyrir falli næðist ekki samkomulag um áætlun vegna hins mikla og skyndilega fjölda flóttafólks.

Cerar sagði hinn 3. nóvember að ESB yrði að hafa betri stjórn á ytri landamærum sínum í Grikklandi. Hann sagði einnig að fólksstraumurinn kynni að taka stefnu lengra í vestur til Albaníu og Svartfjallaland.

 

Angela Merkel Þýskalandskanslari varði mánudaginn 2. nóvember stefnu sína í flóttamannamálum og ákvörðunina um að loka ekki landamærum Þýskalands gagnvart Austurríki meðal annars með þeim rökum að lokunin kynni að leiða til hernaðarátaka í Júgóslavíu fyrrverandi.

Berthold Kohler, útgefandi Frankfurter Allgemeine Zeitung, segir miðvikudaginn 4. nóvember að þetta séu alvarlegustu rök sem Merkel hafi notað til að verja flóttamannastefnu sína. Fyrri heimsstyrjöldin hafi á sínu tíma hafist vegna atviks á Balkanskaga. Í Þýskalandi óttist menn ekkert meira en stríð.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …