Home / Fréttir / Forsætisráðherra Frakka segir stríð milli menningarheima og ógnin gegn Frakklandi sé einstök

Forsætisráðherra Frakka segir stríð milli menningarheima og ógnin gegn Frakklandi sé einstök

Manuel Valls
Manuel Valls

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sagði í sjónvarpsviðtali að morgni sunnudags 28. júní að Frakkar stæðu frammi fyrir „stríði milli menningarheima“ og þeir hefðu „aldrei staðið frammi fyrir slíkri ógn“.

Fosætisráðherrann sagði þetta vegna hryðjuverks gegn gasverksmiðju í Isère-héraði í Frakklandi föstudaginn 27. júní. Hann sagði að enginn gæti sætt sig við „ofbeldi. skrílshátt og aftökur“. Í Saint-Quentin-Fallavier í Isère var maður afhöfðaður og höfuðið sett á staur til sýnis.

Forsætisráðherrann vildi ekki ræða einstök atriði þessa síðasta hryðjuverks í Frakklandi þar sem það væri enn til rannsóknar en í fréttum segir að ódæðismaðurinn, Yassin Salhi, hafi játað á sig verknaðinn og svari nú spurningum rannsóknarlögreglumanna við yfirheyrslu.

Í samtalinu minntist Valls fórnarlamba í Sousse í Túnis og í Kúvæt í hryðjuverkum sem framin voru sama dag og ráðist var á gasverksmiðjuna í Frakklandi. „Það eru engin landamæri sem setja baráttunni við hryðjuverkamenn mörk,“ sagði forsætisráðherrann. Áréttaði hann með því að Frakkar væru ekki sérstakt skotmark vegna afskipta sinna af átökum í Malí eða gegn Íslamska ríkinu í Írak.

Manuel Valls telur að um langvinna hryðjuverkaógn gegn Frakklandi sé að ræða og baráttu við „Daesh [franska ríkisstjórnin notar þetta arabíska orð um Íslamska ríkið], alræðishugsjón þess og undirsáta sem reyna að láta alls staðar að sér kveða í anda hennar“.

Vandinn snerist ekki um að verja „vestræn“ gildi heldur gildi „mannúðar“ – fyrstu fórnarlömb íslamskra hryðjuverkamanna hefðu verið múslímar. „Meðal múslima stendur baráttan einnig milli mannúðlegs íslam og ógnvekjandi íslam,“ sagði forsætisráðherrann: „Við megum ekki tapa þessu stríði sem háð er milli menningarheima.“

Ráðherrann sagði að Frakkar hefðu „aldrei staðið frammi fyrir slíkri ógn“. Óvininn væri bæði að finna innan Frakklands sjálfs og utan. Þegar Valls ræddi tengsl einstaklinga í Frakklandi við „heilaga stríðsmenn“ í öðrum löndum sagði hann um að ræða „ótrúlega öflugt fyrirbæri“ sem lokkaði fólk til Sýrlands sem sneri gjörbreytt til hins verra heim til Frakklands að nýju.

Forsætisráðherrann minnti á að síðan 2012 hefði franska þingið samþykkt tvenn lög til að herða á baráttunni við hryðjuverkamenn og um 30.000 öryggisverðir gættu sérstaklega um 5.000 staða í landinu, hann gæti þó á þessari stundu ekki útilokað að fleiri árásir yrðu gerðar þótt tekist hafi að hindra sex í Frakklandi síðan 2013.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …