Home / Fréttir / Forsætisráðherra Frakka biðst lausnar vegna forsetaframboðs

Forsætisráðherra Frakka biðst lausnar vegna forsetaframboðs

 

Manuel Valls kynnir framboð sitt á fundi með stuðningsmönnum.
Manuel Valls kynnir framboð sitt á fundi með stuðningsmönnum.

Manuel Valls (54 ára) hættir sem forsætisráðherra Frakklands þriðjudaginn 6. desember eftir að hann tilkynnti 5. desember framboð sitt í prófkjöri sósíalista um forsetaframbjóðanda vegna kosninga vorið 2017. Prófkjörið verður í janúar 2017.

„Já, ég er frambjóðandi til forseta lýðveldisins,“ sagði Valls á fundi með stuðningsmönnum sínum í bænum Evry fyrir sunnan París. „Ég vil leggja mig allan fram í þágu Frakklands.„

Sósíalistinn François Hollande Frakklandsforseti kynnti í síðustu viku að hann byði sig ekki fram til endurkjörs vorið 2017.

Kannanir sýna Valls sem líklegan sigurvegara í prófkjöri sósíalista. Hann er þó ekki óskaframbjóðandi þeirra sem finnst hann of hallur undir einkarekstur og of strangur í útlendingamálum.

Valls sagðist vilja sameina sósíalista. Hann byði sig fram sem mann sátta.

Þótt Valls tryggi sér meirihluta meðal sósíalista er ólíklegt að hann komist í aðra umferð forsetakosninganna 7. maí 2017. Talið er fullvíst að þar keppi François Fillon, frambjóðandi mið-hægri Lýðveldisflokksins, og Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, sem berst gegn ESB og útlendingum.

Valls hefur verið forsætisráðherra síðan í mars 2014. Áður var hann innanríkisráðherra í tvö ár. Vinsældir hans hafa dvínað jafnt og þétt.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …