
Umbótaflokkurinn í Eistlandi, flokkur Kaja Kallas forsætisráðherra, er stærsti flokkur landsins að loknum þingkosningum sunnudaginn 5. mars með um 31% atkvæða.
Níu flokkar buðu fram í kosningunum og kepptu um 101 sæti á þingi landsins, Riigikogu. Rúmlega 900.000 voru á kjörskrá. Kjörsókn var 63,7%.
Bráðabirgðaúrslit þegar 99% atkvæða hafa verið talin benda til þess að sex flokkar komist yfir 5% þröskuldinn inn í þingið, þar á meðal er nýr flokkur, Eesti 200, frjálslyndur miðflokkur.
Flokkurinn EKRE fékk næst flest atkvæði, 16,1% og Miðflokkurinn sem að jafnaði hefur notið stuðnings rússneska minnihlutans í landinu skipar þriðja sæti með 15% atkvæða.
Úrslitin gefa til kynna að Umbótaflokkurinn sé í kjörstöðu til að hafa forystu um myndun næstu ríkisstjórnar Eistlands, flokkurinn fær 37 þingmenn á þingi. Hann þarf hins vegar samstarfsflokk eða flokka til að tryggja stjórn sinni meirihluta.
Að EKRE flokknum standa popúlistar sem vilja minnka stuðning Eistlendinga við Úkraínu og sækja hart að stjórn Kallas vegna mikillar verðbólgu.
Samstarf Kallas við EKRE kemur ekki til greina og verður hún því að róa á önnur mið til að afla sér stuðnings meirihluta þingmanna. Líklegt er talið að hún snúi sér til fyrrverandi samstarfsflokks, Miðflokksins, og annarra lítilla samstarfsflokka Föðurlandsflokksins og Jafnaðarmanna.
Kaja Kallas varð forsætisráðherra árið 2021 og eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur hún skipað sér í fremstu röð gagnrýnenda Rússa.
Martin Helme, formaður EKRE, kennir Kallas um háa verðbólgu í landinu, 18,6%, og segir hana grafa undan vörnum Eistlands með því að gefa vopn til Úkraínu.
„Við höfum aldrei efast um að standa beri með Úkraínumönnum. Við höfum aldrei efast um aðild Eistlands að NATO,“ sagði Helme við AP-fréttastofuna, „Tal um annað er hreint rugl. Við höfum hins vegar gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að meta ekki hættuna gagnvart Eistlandi og eistnesku öryggi og vörnum.“
Kallas segir það í þágu eistneskra hagsmuna að aðstoða Úkraínumenn. Sigur Rússa í Úkraínu kynni að ýta undir áhuga rússneskra stjórnvalda á að seilast til valda í öðrum fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna.
Hún segir varnir Eistlands öflugar þar sem Bandaríkjamenn og aðrar NATO-þjóðir hafi látið her landsins í té hátæknivopn eins HIMARS flugskeytakerfið.