Home / Fréttir / Formlegt NATO-umsóknarferli Finna hefst

Formlegt NATO-umsóknarferli Finna hefst

Sanna Marin og Sauli Niinistö tilkynna um NATO-umsókn Finna 15. maí 2022.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, efndu til blaðamannafundar í finnsku forsetahöllinni sunnudaginn 15. maí og tilkynntu að Finnar myndu sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Forsetinn sagði þetta sögulegan dag því að nú hæfist nýr kafli í sögu Finnlands.

„Þessar ákvarðanir styrkja en veikja ekki öryggi okkar,“ sagði Marin forsætisráðherra og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins.

Við athöfnina í forsetahöllina töluðu einnig miðflokksmaðurinn Antti Kaikkonen varnarmálaráðherra og græninginn Pekka Haavisto utanríkisráðherra.

Forsetinn og forsætisráðherrann hvöttu til þess fimmtudaginn 12. maí að Finnar sæktu tafarlaust um aðild að NATO.

Með aðildarumsókninni sem verður send til höfuðstöðva NATO í Brussel eftir tvo til þrjá daga verða dramatísk þáttaskil í öryggismálastefnu Finna sem hverfa frá hefðbundinni stöðu sinni utan hernaðarlegra bandalaga. Frá árinu 2013 hafa Finnar og Svíar hins vegar verið „nánir samstarfsaðilar NATO“ og tekið þátt í fjölda heræfinga undir forystu NATO.

Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu höfðu Finnar lýst hálfvolgum áhuga á NATO-aðild í skoðanakönnunum og stefnuskrám stjórnmálaflokkanna. Undanfarnar vikur hefur stuðningur við aðild vaxið úr tæpum 30% í tæp 80% í skoðanakönnunum.

Finnska þingið kemur saman mánudaginn 16. maí til að ræða aðildarmálið. Að lokinni þinglegri meðferð og samþykkt, hugsanlega 17. maí, munu forsetinn og forsætisráðherrann hefja umsóknarferlið sjálft.

Á blaðamannafundi sunnudaginn 15. maí sagðist Niinistö hafa rætt um aðildarmálið í síma við forseta Rússlands, Tyrklands og Bandaríkjanna.

Hann sagði að samtal sitt við Vladimir Pútin hefði verið rólegt af beggja hálfu. Pútin hefði lýst þeirri skoðun að engin ógn steðjaði að Finnlandi og það væru mistök að ganga í NATO. Niinistö undraðist af hve miklu jafnaðargeði Pútin hefði tekið tíðindunum.

Á blaðamannafundinum var vísað til þess sem Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði föstudaginn 13. maí. Erdogan taldi það „mistök“ að leyfa Finnum og Svíum að ganga í NATO og Tyrkjum væri „ómögulegt“ að styðja það þar sem hann taldi norrænu þjóðirnar tvær styðja aðskilnaðarsinna Kúrda.

Finnski forsetinn sagði að hann áttaði sig ekki á þessari yfirlýsingu. Hann vísaði til símtals við Erdogan frá því fyrir um það bil mánuði. Í því símtali hefði Erdogan vakið máls á NATO og sagt að Tyrkir myndu styðja umsókn.

Niinistö ræddi við Joe Biden Bandaríkjaforseta í síma föstudaginn 13. maí. Hann sagði að Bandaríkjamenn hefðu undanfarið heitið Finnum stuðningi en Biden hefði sagt að bindandi öryggistryggingu gætu þeir ekki veitt á NATO-umsóknarferlinu án sérstakrar ákvörðunar öldungadeildarinnar.

Ákvörðun Jafnaðarmannaflokksins

Flokksráð finnska Jafnaðarmannaflokksins, stærsta flokksins á finnska þinginu, kom saman til nokkurra klukkustunda fundar í Helsinki síðdegis laugardaginn 14. maí. Efni 60 manna fundarins var að taka afstöðu til þess hvort heimila ætti ráðherrum og þingmönnum flokksins að sækja um aðild að NATO. Var það samþykkt með 53 atkv. gegn 5, tveir greiddu ekki atkvæði.

Niðurstaðan kom ekki á óvart eftir að flokksstjórnin hafði einróma lýst yfir stuðningi við aðild og auk þess flokksformaðurinn, Sanna Marin, forsætisráðherra.

Í ræðu á flokksráðsfundinum sagði Sanna Marin:

„Finnar og Svíar hafa verið nánustu samstarfsaðilar NATO árum saman. Við stöndum okkur mjög vel tæknilega og æfum reglulega með NATO-þjóðum. Á hinn bóginn njótum við ekki öryggistrygginga NATO.

Kjarni ákvörðunar okkar snýst um þetta: mundi NATO-aðild auka öryggi Finnlands við breytt ástand? Mundi aðild Finnlands að NATO styrkja evrópskt öryggi? Svarið er að málum yrði þannig háttað.

Ég tel að NATO-aðild sé besta lausnin til að tryggja öryggi Finnlands og stöðugleika á nágrannasvæðum við breyttar aðstæður í öryggismálum. Þess vegna eigum við án tafar að sækja um NATO-aðild.“

Í samtali við Helsingin Sanomat laugardaginn 14. maí sagðist Marin persónulega hafa stutt NATO-aðild síðan 2020 þótt hún hefði ekki kynnt afstöðu sína opinberlega fyrr en í sameiginlegri yfirlýsingu með Niinistö forseta fimmtudaginn 12. maí 2022.

 

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …