Home / Fréttir / Formlegar viðræður hafnar um frið í Afganistan

Formlegar viðræður hafnar um frið í Afganistan

Sendinefnd Talibana á fundinum í Doha 12. september 2020.
Sendinefnd Talibana á fundinum í Doha 12. september 2020.

Föstudaginn 11. september var þess minnst að 19 ár voru liðin frá árásinni New York og Washington. Vegna hennar hófu Bandaríkjamenn á hendur Afganistan sem talið var skjól hryðjuverkamannanna sem réðust á Bandaríkin. Frá þeim tíma hafa tugir þúsunda manna fallið í valinn.

Formlegar viðræður um frið í Aganistan hófust við hátíðlega athöfn í Doha, höfuðborg Persaflóaríkisins Qatar, laugardaginn 12. september 2020 þegar þar komu saman fulltrúar stjórnvalda í Afganistan, róttæku múslimahreyfingarinna sem kennd er við Talibana og bandarískir embættismenn.

Ræðumenn á upphafsfundinum sögðu að framvegis yrði stundarinnar minnst vegna endaloka stríðsþjáninga afgönsku þjóðarinnar. Samkomulag ætti að takast á þeim grunni að enginn hefði sigrað í stríðsátökunum og enginn lotið í lægra haldi.

Abdullah Abdullah, formaður sendinefndar afgönsku stjórnarinnar, sagði að hann kæmi fram fyrir hönd stjórnmálakerfis í Afganistan sem nyti stuðnings milljóna karla og kvenna og endurspeglaði menningarlega, félagslega og þjóðernislega fjölbreytni íbúa Afganistan.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði upphaf viðræðnanna „einstakan viðburð“ og allir sem tækju þátt í þeim bæru mikla ábyrgð. Nú gæfist Afgönum tækifæri til að sigrast á innbyrðis deilum og sundurlyndi.

Baradar Akhund, leiðtogi Talibana, sagði að í Afganistan ætti að ríkja íslamskt kerfi þar sem allir ættbálkar og menn af hvers kyns þjóðaruppruna ættu að njóta sín án mismununar og lifa lífinu í kærleika og bræðralagi. Það kynni að verða erfitt að ræða saman en stefna ætti fram á við af þolinmæði.

Sérfræðingar segja að það sé í sjálfu sér mikið afrek að fá deiluaðila í Afganistan til að ræða saman, að koma á friði verði hins vegar ekki auðvelt, einkum nú þegar ofbeldisverkum fjölgi í landinu.

Fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016 lofaði Donald Trump forseti að kalla bandaríska hermenn heim frá Afganistan. Honum er mikið kappsmál að lokahreyfing komist á málið fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember 2020. Þá er talið a um 4.000 bandarískir hermenn verði enn í Afganistan. Í febrúar 2020 voru 13.000 bandarískir hermenn í landinu og hefur þeim fækkað síðan.

Á dagskránni í Doha eru mörg flókin viðfangsefni. Þar má nefna varanlegt vopnahlé, réttindi kvenna og minnihlutahópa, afvopnun tugþúsunda stríðsmanna Talibana og sveita í þjónustu stríðshöfðingja sem sumir standa með stjórn Afganistans.

Þá verða stjórnarskrármálefni, heiti landsins og fáni einnig á dagskránni.

Í viðræðunefnd ríkisstjórnar Afganistans eru fjórar konu sem heitið því að gæta réttar kvenna gagnvart kröfum Talibana um aukin völd og áhrif. Þar er um að ræða atvinnuréttindi, rétt til menntunar og þátttöku í stjórnmálum. Þegar Talibanar stjórnuðu Afganistan í fimm ár sviptu þeir konur þessum réttindum.

Engin kona er í viðræðunefnd Talibana sem Abdul Hakim Ishaqzai, harðlínu klerkur, stjórnar. Hann hefur árum saman látið fara lítið fyrir sér í borginni Quetta í Pakistan þar sem forystumenn Talibana hafa haldið sig frá 2001 þegar þeim var steypt af stóli með árás Bandaríkjamanna. Sagt er að Abdul Hakim Ishaqzai vilji halda áfram heilögu stríði í Afganistan þar til íslamskt ríki verði endurreist í Afganistan.

Nú hafa Talibanar sagt að þeir ætli að virða atvinnurétt kvenna, rétt þeirra til menntunar og stjórnmálaþátttöku þó kona megi aldrei verða forseti ríkisins né forseti æðsta dómstóls landsins.

Margir Afganar óttast framtíð sína komist Talibanar aftur að stjórnarstólunum. Þeir sættu á sínum tíma harðri gagnrýni fyrir mannréttindabrot, óvirðingu við konur og eyðileggingu menningarverðmæta.

NATO hefur skipulagt og stjórnað mörgum aðgerðum í Afganistan síðan 2001. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði fundinn í Doha 12. september um fjarfundabúnað og hvatti þátttakendur í honum til að nýta sér forystu Afgana til að ljúka þessu afganska friðarferli á farsælan hátt. Afganir og alþjóðasamfélagið vildu að friður næðist.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …