Home / Fréttir / Formaður sænsku Moderatarna segir af sér

Formaður sænsku Moderatarna segir af sér

Anna Kingberg Batra gengur út af blaðamannafundi eftir afsögn sína.
Anna Kingberg Batra gengur út af blaðamannafundi eftir afsögn sína.

Anna Kinberg Batra (47 ára), formaður Moderatarna, mið-hægri flokksins í Svíþjóð, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, tilkynnti i föstudaginn 25. ágúst að hún segði af sér flokksformennskunni þegar aðeins eitt ár er til þingkosninga. Verður kallað saman aukaflokksþing til að kjósa eftirmann hennar.

Batra hefur sætt harðri gagnrýni undanfarna mánuði og fylgi flokksins minnkar jafnt og þétt í skoðanakönnunum. Andstaða við hana hefur magnast innan flokksins bæði meðal forystumanna landshlutasamtaka og í ungliðahreyfingunni.

Hún sagði við blaðamenn að henni bæri að víkja svo að flokksmenn hættu að ræða um sig og sneru sér frekar að málefnum og að því markmiði að styrkja stöðu sína fyrir þingkosningarnar í september 2018.

Gagnrýni blossaði upp innan flokksins í janúar 2017 þegar Batra sagði að hún mundi ekki skorast undan að ræða við Svíþjóðardemókratana (SD) sem skipa sér til hægri við Moderatarna og berjast hart fyrir breytingum á útlendingalögunum til að hefta straum hælisleitenda og farandfólks til landsins. Vildi Batra ræða við þá í leit að sameiginlegri andstöðu við minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja. Batra lenti í miklum mótbyr vegna þessa.

Batra segir að hún iðrist einskis vegna þessara áforma sinna, það hafi verið rétt að taka þá ákvörðun sem hún kynnti í janúar. „Það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir hún nú. „Þegar tekist er á við erfið mál verður maður einnig að búast við ágjöf. En ég harma svo sannarlega ekki ákvörðun mína.“

Nicholas Aylott, stjórnmálafræðingur við Södertörn-háskólann, segir í stjórnmálaskýringu fyrir The Local: „Það liggur ekki í augum uppi að það hefði skilað betri árangri fyrir Moderatarna að mynda það sem stjórnmálafræðingar kalla oft gjá á milli sín og SD.“

Niðurstöður könnunar sem birt var í vikunni sýndu að aðeins 6% kjósenda studdu Batra til að verða næsti forsætisráðherra en Stefan Löfven, núverandi forsætisráðherra, fékk stuðning 24%.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …