Home / Fréttir / Fordæmalaus stjórnarkreppa í Þýsklandi – forsetinn grípur til sinna ráða

Fordæmalaus stjórnarkreppa í Þýsklandi – forsetinn grípur til sinna ráða

Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari ræða saman í forsetahöllinni í Berlín mánudaginn 20. nóvember.
Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari ræða saman í forsetahöllinni í Berlín mánudaginn 20. nóvember.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði mánudaginn 20. nóvember að henni væri ekkert að vanbúnaði við að leiða flokk Kristilegra demókrata (CDU) til nýrra þingkosninga eftir að stjórnarmyndunarviðræður kristilegra (CDU/CSU), Græningja og Frjálsra demókrata (FDP) runnu út í sandinn rétt fyrir miðnætti sunnudaginn 19. nóvember.

„Ég hef miklar efasemdir“ um að leiða minnihlutastjórn sagði Merkel við sjónvarpsstöðina ZDF. Hún sagðist reiðubúin til að verða enn í fjögur ár við stjórnvölinn en það þyrfti meirihlutastjórn til að tryggja stöðugleika í Þýskalandi og Evrópu.

Fréttaskýrendur segja að þessi orð Merkel jafngildi því ekki að boðað verði í skyndi til kosninga að nýju, síðast var kosið til þings 24. september 2017. Það kemur nú í hlut jafnaðarmannsins Frank-Walters Steinmeiers, forseta Þýskalands, að ræða við stjórnmálaleiðtoga til að kanna til þrautar hvort mynda megi meirihlutastjórn.

Nokkrum klukkustundum áður en Merkel ræddi nýjar kosningar hafði Steinmeier forseti hafnað þeim kosti og þess í stað lagt áherslu á þá skyldu hvers flokks gagnvart kjósendum sínum að kanna að nýju hvort þeir gætu ekki átt aðild að starfhæfri meirihlutastjórn.

„Ég vænti þess af flokkunum að innan ekki of langs tíma takist þeim að mynda nýja ríkisstjórn,“ sagði forsetinn í sjónvarpsávarpi frá Berlín. Flokkarnir bæru ábyrgð sem þeir gætu einfaldlega ekki kastað í fang kjósenda sinna.

Sé engin meirihlutastjórn í spilunum ber Steinmeier samkvæmt þýsku stjórnarskránni að tilefna kanslaraefni sem leitar trausts í neðri deild þýska þingsins, Bundestag. Takist ekki að mynda stöðuga ríkisstjórn eftir þrjár atkvæðagreiðslur í þinginu er forsetanum skylt að boða Þjóðverja að nýju að kjörborðinu.

Fréttaskýrendur  segja að Steinmeier vilji komast hjá þessu. Hann segist ætla að ræða við stjórnmálaleiðtoga í von um að leggja grunn að samkomulagi um stjórnarmyndun. Talið er mjög ólíklegt að forsetanum takist þetta með vísan til ástandsins í þýskum stjórnmálum.

Þetta er staða án fordæmis í þýskum stjórnmálum. Forseti Þýskalands sinnir almennt aðeins formlegum skyldum en Steinmeier hefur nú orðið að lykilmanni í þýskum stjórnmálum vegna þess sem hann kallaði „ástand án fordæmis í sögu Sambandslýðveldisins Þýskalands“.

Flokkur frjálsra demókrata (FDP) sleit stjórnarmyndunarviðræðum við kristilega (CDU/CSU) og græningja í Þýskalandi skömmu fyrir miðnætti sunnudaginn 19. nóvember.

Þegar Christian Lindner, formaður FDP, kynnti brotthvarf flokks síns frá viðræðunum, sagði hann að ágreiningur hefði risið um mál sem áður hefði verið ýtt hliðar með málamiðlun. „Það er betra að setjast ekki í stjórn frekar en stjórna á rangan hátt,“ sagði hann.

Lindner sagði síðar á Twitter: „Við finnum ekki að því að menn haldi fast í sjónarmið sín. Þetta gerum við einnig sjálf. Við vorum kjörin til að snúa af núverandi braut en við gátum ekki náð samkomulagi.“

Horst Seehofer, leiðtogi CSU, kristilegra í Bæjarlandi, sagði að samkomulag hefði legið á borðinu milli flokkanna fjögurra áður en FDP hvarf á braut. Cem Özdemir, annar tveggja formanna græningja, tók undir þessi orð Seehofers og sagði að flokkur sinn hefði ætíð lýst vilja til málamiðlunar um lykilmál. FDP hefði því miður skotið niður allar hugsanlegar hugmyndir um lýðræðislegar lausnir. Saka græningjar FDP um að kjósa að fara inn á braut popúlisma í stað ábyrgðar.

Bent er á að hugsanlega megi leysa stjórnarkreppuna með því að fá jafnaðarmenn (SPD) til að falla frá ákvörðun sinni um að slíta samstarfinu við Merkel. Martin Schulz, leiðtogi SPD, sem fór illa út úr átökum sínum um kanslaraembætti við Merkel hafnar enn sem fyrr framhaldi á stjórnarsamstarfinu.

„Í ljósi úrslitanna 24. september verðum við ekki aðilar að stórri samsteypustjórn,“ sagði Schulz mánudaginn 20. nóvember. Jafnaðarmenn óttuðust ekki nýjar kosningar og teldu sig ekki hafa neitt umboð til að starfa áfram í stjórn með Merkel.

Forystumenn flokksins Alternativ für Deutschland (Afd) sem vann góðan sigur í kosningunum með 12,6% atkvæða og berst fyrir harðari útlendingalöggjöf fögnuðu því að Merkel tækist ekki að mynda meirihlutastjórn. Þeir telja að fylgi flokks síns aukist enn verði boðað strax til nýrra kosninga. Merkel eigi einfaldlega að hætta sem kanslari.

Die Linke, flokkurinn lengst til vinstri, hvetur einnig til nýrra kosninga sem fyrst og segir þær „rökrétt lýðræðislegt framhald“ þess að stjórnarmyndunarviðræðurnar mistókust.

Fréttaskýrendur segja að við slit viðræðnanna í Þýskalandi skapist ekki aðeins mikil óvissa í þýskum stjórnmálum heldur einnig innan ESB. Þetta sé óheppilegt í ljósi vaxandi spennu vegna Brexit-viðræðnanna svonefndu um úrsögn Breta úr ESB og vegna ástandsins á Spáni þar sem tekist er á um sjálfstæði Katalóníu.

Bent er á að skorti pólitíska forystu í Þýskalandi vegna stjórnarkreppu halli þýskir embættismenn í Brexit-viðræðunum sér alfarið að forystu og samningsumboðinu á vettvangi ESB sem leiði til meiri stirðleika og jafnvel meiri hörku í garð Breta.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …