Home / Fréttir / Fordæma flugrán Lukasjenkos

Fordæma flugrán Lukasjenkos

Í Vilnius, höfuðborg Litháens, sveipuðu stuðningsmenn Romans Protasevitsj sig hvit-rúissneskum fánum.

Leiðtogaráð ESB fordæmir flugrán Alexanders Lukasjenkos, forseta Hvíta-Rússlands, sunnudaginn 23. maí þegat hann sendi Mig-29 orrustuþotur til móts við Ryanair-farþegavél á flugi yfir Hvíta-Rússlandi á leið frá Aþenu til Vilníus, höfuðborgar Litháens. Neyddust flugmennirnir að leggja lykkju á leið sína og lenda á Minsk-flugvelli í Hvíta-Rússlandi. Handtóku lögreglumenn Roman Protasevitsj (26 ára), andófsmann og fyrrverandi ritstjóra Nexta, um borð í vélinni.

Sendiherra Hvíta-Rússlands gagnvart ESB var kallaður á teppið í Brussel mánudaginn 24. maí til að taka við fordæmingu af hálfu sambandsins með ósk um að hún yrði flutt Lukasjenko. Þar er ekki aðeins fordæmd aðför að öryggi farþega um í borð í flugvélinni heldur einnig að vegið sé að skoðana- og tjáningarfrelsi allra íbúa Hvíta-Rússlands. Er þess krafist að Roman Protasevitsj verði tafarlaust sleppt.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að rannsaka verði „þetta alvarlega og hættulega atvik“. Fastafulltrúar NATO-ríkjanna hittast á fundi þriðjudaginn 25. maí og ræða málið.

Frönsk stjórnvöld sögðu mánudaginn 24. maí að það kæmi til álita að setja ferðabann um lofthelgi Hvíta-Rússlands. Frá Írlandi, heimalandi Ryanair, berast fréttir um að Simon Coveney utanríkisráðherra segi stjórn Hvíta-Rússlands hafa staðið að flugráni og óhjákvæmilegt sé að grípa til aðgerða, yfirlýsingar dugi ekki einar í tilvikum sem þessum.

Í Litháen hafa stjórnvöld ákveðið að banna allt flug til og frá landinu yfir Hvíta-Rússland næstu dægrin.

Í Úkraínu er rætt um að loka á allt flug milli Minsk og Kænugarðs en bein fluglína milli höfuðborganna er 430 km og situr hvít-rússneska flugfélagið Belavia eitt að leiðinni. Eftir að Rússar réðust á Úkraínu 2014 lagðist allt beint flug niður milli Rússlands og Úkraínu og var lofthelgi Úkraínu lokað fjórum rússneskum flugfélögum sem halda uppi ferðum milli Rússlands og Krímskaga. Úkraínumenn nota oft Minsk til millilendingar í flugi til og frá Rússlandi.

Frá Kreml bárust þær fréttir mánudaginn 24. maí rétt væri að alþjóðlegir aðilar kynntu sér hvað gerst hefði og leiddi til óvæntrar lendingar farþegaflugvélar í Hvíta-Rússlandi og handtöku mótmælanda um borð. Alþjóðareglur giltu um flug og alþjóðastofnanir ættu að leggja mat á hvort þær væru virtar, sagði Dmitri Peskov, talsmaður Kremlverja.

Stjórnvöld í Minsk halda uppi vörnum fyrir aðgerðir sínar. Ríkisfjölmiðlar þar segja að það hafi verið eðlilegt að bregðast við eins og gert var eftir að „sprengju-hótun“ barst vegna vélarinnar. Þeir sögðu „öfgamann“ hafa verið handtekinn. Engin slík viðvörun barst vegna vélarinnar heldur er um opinbera lygi í Hvíta-Rússlandi að ræða. Einnig hin fullyrðing ríkisfjölmiðlanna um að Roman Protasevitsj hafi ekki vakið athygli öryggisvarða fyrr en hann hafi „brotið gegn landamæra- og tolleftirliti“ er ósönn. Síðdegis mánudaginn 24. maí bættu ríkismiðlarnir við að borist hefði tölvubréf til Ryanair með hótun sem sagt er að hafa verið frá Hamas-samtökum Palestínumanna.

Artem Sikorski, stjórnandi flugmála í samgönguráðuneyti Hvíta-Rússlands, sagðist lesa rússneska þýðingu þessa texta á ensku:

„Við, hermenn Hamas, krefjumst þess að Ísraelar hætti skotárásum á Gaza-svæðið. Við krefjumst þess að Evrópusambandið hætti stuðningi við Írsael (…) sé ekki orðið við kröfum okkar springur sprengja (um borð í flugvél Ryanair) yfir Vilnius.“

Þýsk stjórnvöld urðu meðal þeirra fyrstu til að bregðast við þessum fullyrðingum. Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði þær „ekki trúlegar“.

Utanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands vísaði sendiherra Lettlands og öllu starfsliði sendiráðsins í Minsk úr landi mánudaginn 24. maí og sakaði stjórnvöld Lettlands um að hafa dregið fána Hvíta-Rússlands niður og sett í hans staða fána stjórnarandstöðu landsins á stöng við skautahöll þar sem fram fara leikir í heimsmeistarakeppni í íshokkí.

„Sendiherra Lettlands er beðinn að yfirgefa landið innan 24 klukkustunda. Þá eru diplómatískir starfsmenn, skrifstofu- og tæknimenn sendiráðsins einnig beðnir að yfirgefa Hvíta-Rússland innan 48 klukkustunda,“ sagði

Vladimir Makeï utanríkisráðherra við opinberu fréttastofuna Belta.

Stjórnvöld í Lettlandi svöruðu með því að reka sendiherra Hvíta-Rússlands og sendiráðsmenn úr landi.

Heimild: Le Figaro

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …