Home / Fréttir / Flynn fyrr. öryggiráðgjafi laug að FBI um samtöl við rússneska sendiherrann

Flynn fyrr. öryggiráðgjafi laug að FBI um samtöl við rússneska sendiherrann

Michael Flynn
Michael Flynn

Michael T. Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, viðurkenndi föstudaginn 1. desember að hann hefði logið að bandarísku alríkislögreglunni, FBI, um samtöl við sendiherra Rússlands í desember 2016 eftir að Trump var kjörinn forseti en hafði ekki enn verið settur í embætti. Þar með hefur rannsókn sérstaks saksóknara á afskiptum Rússa af bandarísku kosningabaráttunni árið 2016 náð til þeirra sem fylgdu Trump úr kosningabaráttunni inn í Hvíta húsið.

Flynn kom fyrir alríkisdómstól í Washington og viðurkenndi að hann starfaði nú með sérstaka saksóknaranum, Robert S. Mueller, og mönnum hans við rannsókn á Rússatengslunum. Talið er að Flynn hafi látið rannsakendum í té gögn eða upplýsingar sem auðveldi þeim starf sitt.

Nú hafa fyrrverandi formaður kosningastjórnar Trumps, tveir starfsmenn kosningaskrifstofunnar og fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps verið sakaðir um lögbrot.

Flynn ræddi tvisvar við Sergeij I. Kisljak, sendiherra Rússa í Bandaríkjunum án þess að skýra FBI frá því við upphaflega yfirheyrslu. Leyni menn FBI upplýsingum við yfirheyrslu geta þeir hlotið fimm ára fangelsisdóm.

Í einu af skjölunum sem lögð voru fyrir dómara í máli Flynns kemur fram að hann hafi rætt við rússneska sendiherrann um væntanlega atkvæðagreiðslu í öryggisráði SÞ um hvort fordæma ætti stækkun landnemabyggðar Ísraela. Um sömu mundir bjó stjórn Obama, fráfarandi forseta, sig undir að leyfa atkvæðagreiðslu í öryggisráðinu um málið.

Við rannsókn Muellers hefur verið upplýst að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, bað þá sem unnu með forsetaefninu Trump að fá önnur ríki til að styðja málstað Ísraela. Rannsóknin hefur leitt í ljós að Flynn og Jared Kushner, tengdasonur Trumps og sérlegur ráðgjafi, tóku forystu í málinu. Fundist hefur tölvubréf frá Flynn þar sem hann segist ætla að koma málinu fyrir kattarnef.

Í seinna samtalinu við rússneska sendiherrann fór Flynn þess á leit að Rússar hefðu hægt um sig þótt Obama tilkynnti þann sama dag að hann ætlaði að refsa Rússum fyrir íhlutun þeirra í kosningabaráttuna. Sendiherrann sagði Rússa ætla að „mótmæla af hófsemd“. Daginn eftir sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti í Moskvu að Rússar myndu ekki svara refsiaðgerðum Bandaríkjamanna í sömu mynt.

Trump hrósaði Pútín á Twitter og sagði: „Flottur frestunarleikur (hjá V. Pútín) – ég vissi alltaf að hann væri klókur.“

Flynn sat aðeins 24 daga í embætti þjóðaröryggisráðgjafa. Hann sagði af sér 13. febrúar 2017 eftir að í ljós kom hann að hann hafði blekkt Mike Pence varaforseta og aðra háttsetta embættismenn með röngum frásögnum um fundi sína með rússneska sendiherranum.

Heimild: The New York Times

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …