Home / Fréttir / Flutningar með lestum aukast frá Kína vegna COVID-19

Flutningar með lestum aukast frá Kína vegna COVID-19

silkevejen

Vegna CODIV-19-faraldursins beinist athygli meira nú en áður að vöruflutningum með járnbrautalestum milli Kína og Evrópu. Undir lok mars hélt fyrsta lestin, eftir tveggja mánaða hlé, frá Wuhan í 15 daga ferð til Duisburg í Þýskalandi.

Frá því að fyrst var lagt upp í slíka lestaferð árið 2011 hefur járnbrautanetið fyrir vöruflutningalestir vaxið jafnt og þétt. Gerð þess er hluti af belti-og-braut fjárfestingaverkefni Kínverja. Nær mánaðarlega tengjast nýjar borgir netinu.

Nú eru minnst 70 beinar tengingar flutningalesta milli kínverskra og evrópskra borga. Lengst er leiðin 13.000 km frá Yiwu til Madrid. Er þetta lengsta lestaleið í heimi. Hún liggur frá Urumqi í Xinjiang-héraði til skiptistöðvarinnar í Duisburg um Kasakhstan, Rússland og Pólland.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 fjölgaði bæði lestum og gámum á þessari leið um 25% í samanburði við árið 2019. Kína var opið í apríl en Evrópa lokuð. Þá voru 979 flutningalestir sendar af stað frá Kína, fleiri en nokkru sinni áður í einum mánuði, aukning um 46% miðað við apríl 2019. Alls var um 88.000 gáma að ræða, 50% fleiri en í fyrra.

Þegar flugsamgöngur lágu að mestu niðri og landamæri voru lokuð auk þess sem þrengdi mjög að allri þjónustu í höfnum voru flutningar með lestum lífæð vörusölu Kínverja til Evrópu. Vörurnar eru fyrst og fremst rafeindatæki, íhlutir, fatnaður og heimilistæki en undanfarnar vikur einnig lyf og lækningatæki.

Það er dýrara að flytja með lestum en skipum en ódýrara en með flugvélum. Lestir fara að sjálfsögðu hægar en flugvélar en hraðar en skip. Nú hafa lestir fengið forskot, talið er að ferðum þeirra sé frekar að treysta en flugvéla og skipa.

Upphaflega lágu teinarnir aðeins fyrir norðan Svartahaf eins og lýst er hér að ofan áður en komið var til Póllands, Tékklands og Þýskalands og þaðan áfram. Nú ná teinar frá Kína til Tyrklands með tengingu norður um Balkanskaga. Danska fyrirtækið Mærsk Line, mesti gámaflytjandi í heimi, hefur tilkynnt að að það skipuleggi vikulegar lestaferðir frá Xian í Kína til Izmit í Tyrklandi og þaðan að Svartahafi með frekari flutningi til suður- og austur-hluta Evrópu.

Fyrsta flutningalestin fór í göngum undir Hellusund (Bosporus-sund) í nóvember 2019 til að kynna nýja flutningaleið.

Víðtækt alþjóðasamstarf býr að baki því að tryggja sporstærðir og annað svo að lestir komist svo langa leið um mörg lönd auk þess sem um tollasamstarf er að ræða sem svipar til TIR-samstarfsins sem gildir um flutninga með bílum á vegum Evrópulanda.

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …