Home / Fréttir / Flugrisarnir rumska í Evrópu eftir faraldurssvefninn

Flugrisarnir rumska í Evrópu eftir faraldurssvefninn

markwagtendonk

Smátt og smátt hefja farþegaflugvélar sig á loft að nýju eftir að hafa verið lagt mánuðum saman vegna COVID-19-faraldursins. Flugrisinn Air France-KLM rumskaði til dæmis í vikunni og hóf flug á átta leiðum. Czech Airlines og þýska Lufthansa senda vélar sínar á næstunni inn á gamalkunnar áætlanaleiðir, segir á checkin.dk, danskri vefsíðu um flugmál.

Frá byrjun vikunnar 10. maí eru skráðar 90.071 flugferðir um heim allan eftir um tæplega tveggja mánaða hlé, eða nánar tiltekið frá 23. mars 2020.

Sífellt fleiri evrópsk flugfélög senda frá sér tilkynningar um að í maí og á næstu mánuðum muni þau hægt og sígandi sækja í sig veðrið.

Frá og með mánudeginum 18. maí ætlar Czech Airlines eftir sex vikna hlé að hefja að nýju áætlunarflug frá Prag til Amsterdam, Frankfurt, Parísar og Stokkhólms og síðar til Kænugarðs og Odessa auk Búkarest.

KLM mun selja allt að 100 sæti frá Amsterdam til Barcelona, Búdapest, Helsinki, Madrid, Milano-Malpensa, Prag, Róm og Varsjár.

Checkin.dk segir að Air France-KLM telji að í á þriðja ársfjórðungi geti félagið sinnt allt að 20% af áætlunarferðum sínum en 60% á fjórða ársfjórðungi 2020. Þegar 2021 gengur í garð er gert ráð fyrir að hlutfallið verði 80% af fyrri ferðafjölda.

Frá og með 1. júní ætlar Lufthansa að fjölga vélum í umferð um 80 auk þeirra 80 sem sinnt hafa neyðarflugi undanfarnar vikur. Þar með verða 160 af 760 flugvélum félagsins aftur á ferð og flugi. Þýska félagið stefnir að því að fljúga til 106 staða í júní sem er 21% af útgefinni áætlun.

Hjá Sviss, dótturfélagi Lufthansa, er stefnt að því að í júní verði 15 til 20% af upphaflegri áætlun sinnt. Á viku verða farnar 140 ferðir frá Zürich til 30 staða í Evrópu og um 40 á viku frá Genf til 14 staða í Evrópu. Þar að auki ætlar félagið þrisvar í viku að fljúga til New York-Newark og síðan fjölga stöðum utan Evrópu.

Starfsmenn Lufthansa segja að farþegar hafi tekið því vel að bera grímur á ferðum sínum. Áfram verður gerð krafa um þær.

International Airlines Group (IAG) sem rekur British Airways, Aer Lingus, Iberia og Vueling ætlar í júli og á þriðja ársfjórðungi að sinna að nýju 45% af auglýstri áætlun. Ætlunin er að talan verði 70% á loka ársfjórðungi 2020.

Qatar Airways sem á 25% í IAG hefur flogið til margra landa undanfarnar vikur þrátt fyrir heimsfaraldurinn og í lok maí stefnir félagið að því að fljúga til 53 staða frá Doha. Í júní er ætlunin að fljúga til 80 staða, þar með Kaupmannahafnar, Oslóar og Stokkhólms.

Hjá lággjaldafélaginu Ryanair er boðað að 1. júlí sé stefnt að 40% brottfara og þar með tæplega 1.000 flugum á 90% af ferðaneti félagsins fyrir faraldurinn.

SAS hefur undanfarna mánuði ekki hætt að fljúga tvisvar á dag á milli Kaupmannahafnar og Álaborgar í Danmörku. Frá með 1. júní verða daglegar ferðir fjórar á þessari leið. Þá hefjast einnig þrjár ferðir á dag milli Kaupmannahafnar og Billund. Loks stefnir SAS að því að fljúga tvisvar á dag milli Árósa og Kaupmannahafnar frá 25. maí. Landamæri Danmerkur eru lokuð og óvíst hvenær þau verða opnuð.

Ísland

Á ruv.is birtist laugardaginn 16. maí:

Búast má við að Wizz Air verði það flugfélag sem fyrst byrjar að fljúga til Íslands fyrir utan Icelandair þegar landamærin verða opnuð. Þetta segir ritstjóri ferðavefsins Túrista sem á von á tveimur til fjórum vélum hingað á dag seinnihluta júní. Hann telur að um næstu mánaðamót verði fleiri komnir með kjark til að ferðast.

21 flugfélag ætlaði að fljúga hingað í sumar

Stóra spurningin er hvenær ferðamenn og aðrir gestir fara að koma hingað fyrir alvöru. Eina sem er öruggt með flug til landsins frá 15. júní er framlengdur samningur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við Icelandair til 27. júní. Það eru tvö flug í viku til þriggja áfangastaða; Boston, Lundúna og Stokkhólms. Í sumar var hins vegar 21 flugfélag með Ísland sem fastan áfangastað.

„Ennþá á maður eftir að sjá að erlend flugfélög setji Íslandsflug á þannig að maður treysti að það verði á dagskrá,“ segir Kristján Sigurjónsson ritstjóri ferðavefjarins túristi.is.

Ísland ekki með hjá Lufthansa

Lufthansa er ein flugfélagið, sem var með Ísland á dagskrá, sem búið er að birta áætlun sína í júní og Ísland er ekki í þeirri áætlun. Kristján segir að önnur flugfélög eigi eftir að birta örugga áætlun.

Bandarísku flugfélögin Delta, American Airlines og United Airlines eru búin að afskrifa Ísland úr sumaráætlun sinni og líka Air Canada.

Wizz Air líklega fyrst á eftir Icelandair

Í fyrrasumar var Wizz Air með flest flug til Keflavíkur að Icelandair frátöldu.

„Það flugfélag stendur vel og hefur vilyrði fyrir styrkjum frá breska ríkinu. Það er svona eftir að sjá til hvernig flugfélagið fer af stað. Það er aðeins byrjað að fljúga. Maður kannski býst við að það verði það flugfélag sem fari kannski einna fyrst af stað.“

Helmingur flugfélaga búin að fá ríkisstuðning

Kristján segir að ellefu af þess 21 flugfélagi, sem var með Ísland á áætlun, annað hvort hafa fengið aðstoð frá stjórnvöldum í sínum löndum eða fengið vilyrði um lán. Tíu félaganna séu í svipaðri stöðu og Icelandair.

„Þetta svona mjakast í þá áttina að ríkið komi þessum félögum til aðstoðar.“

2 til 4 flug á dag seinnihlutann í júní

Ef allt gengur snurðulaust með sýnatökur úr komufarþegum í Leifsstöð á Kristján von á því að Icelandair fljúgi á þá áfangastaði sína sem eru vel bókaðir enda þurfi félagið þá ekki að endurgreiða þeim farþegum sem ákveða að nýta ekki flugið. En hann á von á því að strax upp úr miðjum júní verði meira en eitt flug á dag:

„Það er vonandi að það verði einhverjar tvær, þrjár, fjórar. En það var ein að jafnaði á dag í apríl og það hlýtur að vera möguleiki að fylla fleiri vélar í júní. Og svo gerir maður bara ráð fyrir því að þessi mál skýrist kannski í næstu viku og þarnæstu og fleiri hafi þá kjark í að ferðast. Þannig að það kannski verður þannig að það verður búið að telja kjark í miklu fleiri um næstu mánaðamót.“

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …