Home / Fréttir / Flugmóðurskip á N-Atlantshafi og flotadeild til að sýna fælingarmátt

Flugmóðurskip á N-Atlantshafi og flotadeild til að sýna fælingarmátt

Freigáta eins og sú sem Danir ætla að senda í flotadeildina.

Danir ætla að senda freigátu með allt að 135 sjóliðum til að fylgja bandarísku flugmóðurskipi á Norður-Atlantshafi í því skyni að árétta fælingarmátt NATO á svæðinu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu danska varnarmálaráðuneytisins fimmtudaginn 23. júní en fyrr þann dag áttu Morten Bødskov varnarmálaráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra samráðsfund með utanríkismálanefnd danska þingsins um málið,

Fyrir utan skip frá Bandaríkjunum og Danmörku verða herskip frá Kanada, Frakklandi, Spáni og Hollandi í flotadeildinni sem fylgir flugmóðurskipinu.

Jafnframt ætla Danir í ágúst að senda hingað til Íslands fjórar F-16 orrustuþotur og 65 hermenn til fjögurra vikna loftrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli.

Morten Bødskov sagði á stuttum blaðamannafundi að miklu skipti að sýnt yrði í verki að Evrópuríki stæðu saman.

„Það er stríð í Evrópu, enginn efast um það. Ástandið í Evrópu hefur gjörbreyst. Það skiptir miklu að við sendum frá okkur öflug skilaboð um að við stöndum saman eins og staðan er núna í Evrópu,“ sagði varnarmálaráðherrann.

Danir ætla einnig að styðja Úkraínumenn áfram með sérstöku framlagi vegna hernaðar Rússa í landinu. Jeppe Kofod utanríkisráðherra sagði að „hörmulegt rússneskt stríð“ væri háð í Úkraínu og Danir mundu styðja Úkraínumenn á öllum vígstöðvum.

Hann sagði ekki í hverju stuðningurinn yrði fólginn en þar væri bæði um vopn og mannúðlega aðstoð að ræða.

Danir taka þátt í vörnum Lettlands með því að halda þar úti 800 manna herliði.

Danir hafa áður sent herskip til þátttöku í alþjóðlegri flotadeild með flugmóðurskipi á vegum NATO. Síðast árið 2019 vegna aðgerða gegn hryðjuverkamönnum Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …