Home / Fréttir / Flugher Úkraínu sagður hafa grandað tveimur rússneskum hátæknivélum

Flugher Úkraínu sagður hafa grandað tveimur rússneskum hátæknivélum


Rússnesk A-50-njósnavél.

Herstjórn Úkraínu sendi frá sér tilkynningu mánudaginn 15. janúar um að liðsmönnum hennar hefði tekist að granda tveimur rússneskum eftirlits- og stjórnstöðvarflugvélum í „vel heppnuðum leiðangri“ yfir Azovhafi.

„Flugher Úkraínu hefur eyðilagt A-50 langdræga ratsjárflugvél og Il-22 stjórnstöðvarvél,“ sagði yfirmaður hers Úkraínu, hershöfðinginn Valeríj Zalusjíníj á Telegram.

Dmitríj Peskov, uppýsingafulltrúi Rússlandsforseta, sagðist ekki hafa neinar upplýsingar um að tveimur rússneskum hervélum hefði verið grandað.

Í úkraínska vefmiðlinum Kyiv Independent segir að það sé mjög erfitt ef ekki ómögulegt fyrir Rússa að fá vélar í stað þessara tveggja.

Beriev A-50 eftirlitsvél sinnir margvíslegum mikilvægum verkefnum í stríði Rússa í Úkraínu. Úr vélinni er meðal annars unnt að finna loftvarnakerfi, flugskeyti og mæla út skotmörk fyrir rússneska orrustuflugmenn. Rússar eiga aðeins átta slíkar vélar, segir Kyiv Independent.

Í norska netmiðlinum ABC Nyheter er rætt við Lars Peder Haga við Lofthernaðarskólann, sérfróðan um rússneska flugherinn. Hann segir að ef til vill séu fimm til sex af flugvélum sem þessum í notkun á hverjum tíma.

Þá er einnig sagt að Il-22M-vélar séu sjaldgæfar. Þær haldi sig fjarri átökum til að stjórna þeim og samhæfa aðgerðir. Í júní fyrra var talið að Rússar ættu allt að 12 vélar af þeirri gerð.

Á vefsíðu blaðsins RBC Ukraina er birt hljóðbútur sem á að vera frá Il-22M flugvélinni. Þar heyrast flugmennirnir biðja um að aðstoð, þeir þurfi bæði sjúkra- og slökkvibíla þegar þeir lendi. Óvíst er hvort tókst að lenda vélinni.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að breska varnarmálaráðuneytið hafi á sínum tím talið að Rússar „kynnu“ að halda úti sex A-50-vélum. Hver þeirra kosti hundruð milljóna dollara.

Í febrúar 2023 sögðu samtök stjórnarandstæðinga í Belarús að þeim hefði tekist að valda skemmdum á A-50-hervél í drónaárás nálægt Minsk, höfuðborg Belarús.

BBC ræddi við Justin Brok, sérfræðing í lofthernaði við hugveituna RUSI í London. Hann sagði að hefði A-50-vél verið grandað væri það áfall fyrir hæfni flughers Rússa og fyrir virðingu hans.

Hann sagði A-50 gegna lykilhlutverki í þágu orrustuvéla Rússa bæði til að fylgjast með ferðum lágfleygra véla Úkraínumanna og til að miða út skotmörk fyrir rússneska flugherinn. Rússar ættu aðeins fáar vélar af þessari gerð og jafnvel enn færri áhafnir til að fljúga þeim og beita tækjum þeirra. Það væri því „reiðarslag“ ef einni vél og áhöfn hennar hefði verið grandað.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …