
Flugher Kína hefur sent sprengjuvélar til manngerðra eyja á skerjum á Suður-Kínahafi. Tóku þær þátt í æfingum sem sýna eiga getu Kínverja til valdbeitingar á þessu umdeilda svæði.
Kínverski flugherinn gaf út tilkynningu um ferðir vélanna sunnudaginn 20. maí þar sem sagði að fjölmargar sprengjuvélar úr flugher kínverska alþýðuhersins hefðu æft lendingar og flugtök á eyjum og skerjum á Suður-Kínahafi til að tryggja að herinn gæti látið að sér kveða á öllu yfirráðasvæði Kína, gert árásir hvenær sem væri og hvar sem væri.
Þess var ekki nánar getið hvar og hvenær æfingarnar hefðu verið.
Kínverjar segja að hernaðarmannvirkin sem þeir hafa reist á Spratlys-eyjum þjóni aðeins varnarhagsmunum þeirra. Kínverjar krefjast yfirráða á næstum öllu Suður-Kínahafi þrátt fyrir gagnkröfur frá Brunei, Malasíu, Tævan, Víetnam og Filippseyjum.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, vill ekki stofna til árekstra við Kínverja. Laugardaginn 19. maí færði hann þau rök fyrir afstöðu sinni að kínverskar flugvélar væru ekki á Spratlys-eyjum heldur á meginlandi Kína sem sneri að eyjunum og Kínahafi. Forsetinn bætti við:
„Með hljóðfráum vélum sínum geta þeir náð til Manilla [höfuðborgar Filippseyja] á 7 til 10 mínútum. Ef við viljum stofna til allsherjarstríðs hvað yrði þá um Filippseyjar?“
Þingmenn á Filippseyjum gagnrýna forsetann fyrir afstöðu hans og utanríkisráðuneyti landsins segir að beitt verði diplómatískum aðferðum til að rétta hlut Filippseyja í deilunni um ráð yfir Suður-Kínahafi. Gerðardómur í Haag komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að Kínverjar brytu gegn rétti Filippseyinga með kröfum sínum og aðgerðum á Suður-Kínahafi.
Duterte vill að stofnað verði til sameiginlegrar leitar að olíu og gasi á svæðinu en margt bendir til að auðlindir séu þarna á hafsbotni.