Home / Fréttir / Flóttamenn valda spennu milli stjórnvalda í Austurríki og Bæjaralandi

Flóttamenn valda spennu milli stjórnvalda í Austurríki og Bæjaralandi

 

Riddaralögregla Slóveníu reynir að stýra straumi flóttamanna,
Riddaralögregla Slóveníu reynir að stýra straumi flóttamanna,

Spenna eykst milli Austurríkismanna og Þjóðverja vegna flóttamannastraumsins til Evrópu.  Meðal stuðningsmanna Angelu Merkel Þýskalandskanslara í flokki kristilegra demókrata (CDU) og í flokki kristilegra sósíalista (CSU) í Bæjaralandi vex óþolinmæði vegna afleiðinga þeirrar ákvörðunar kanslarans að bjóða aðkomufólki úr suðri til landsins. Í Bæjaralandi vilja ráðamenn að Merkel beiti kanslara Austurríkis hörku

Í byrjun vikunnar komu 8.000 manns á einum degi frá Austurríki til Bæjaralands. Engin viðvörun hafði verið gefin frá Vín um för fólksins til Bæjaralands. „Framkoma Austurríkismanna skapar vandræði milli granna. Svona getur maður ekki og á ekki að umgangast aðra,“ sagði Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjaralands og formaður CSU, mánudaginn 26. október. Áður hafði verið samið við stjórnvöld í Vín um að þau hleyptu 50 manns í senn yfir landamærin til Þýskalands.

Seehofer hefur verið mjög gagnrýninn á stefnu Merkel í málefnum flóttamanna. Í samtali við blaðið Passauer Neue Presse mánudaginn 26. október kynnti Seehofer úrslitakost gagnvart Merkel. Hún ætti tafarlaust að hringja í Werner Faymann, kanslara Austurríkis, og skipa honum að ná stjórn á framvindu mála gagnvart aðkomufólkinu. Merkel svaraði þriðjudaginn 27. október og hafnaði þessari kröfu, vinna yrði að málinu skref fyrir skref, ekki væri unnt að skrúfa á svipstundu fyrir strauminn. Hún væri auk þess í stöðugu sambandi við Austurríkismenn.

Merkel og Seehofer hittast laugardaginn 31. október og sunnudaginn 1. nóvember hitta þau Sigmar Gabriel, formann jafnaðarsmanna, samstarfsmanna Merkel í ríkisstjórninni.

Henning Otte, talsmaður þingflokks CDU í varnarmálum, hvetur til þess að þýski herinn verði virkjaður til landamæravörslu vegna komu fólks yfir landamærin gagnvart Austurríki og Tékklandi, Þýsk lög heimili að hernum sé beitt í þágu landamæravörslu sé álag um of á landamæralögregluna. Þannig sé málum háttað nú eins og á sínum tíma þegar hernum hafi verið falin verkefni við landamæravörslu vegna G8-leiðtogafundarins í Heiligendamm. Nú eigi að nýta ratsjár, þyrlur og dróna til að finna þá sem fara á ólögmætan hátt yfir landamærin.

Ríkisstjórn Austurríkis hefur ákveðið að reisa flóttamannagirðingu á landamærunum við Slóveníu. Ungverjar hafa nú þegar lokað landamærum sínum með slíkri girðingu, þess vegna streyma þeir um Króatíu, Slóveníu og Austurríki til Þýskalands. Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, segir að girðingin eigi „ekki að vera þéttriðin“. Heldur eigi hún að auðvelda skipulegt eftirlit og skráningu.

Í Der Spiegel hefur birst frétt um að Seehofer íhugi að beina flóttamönnunum í gegnum Bæjaraland til annarra sambandslanda Þýskalands. Þá komi einnig til álita að smala flóttafólki í Bæjaralandi saman og senda til baka til Austurríkis í langferðabílum.

,Joachim Herrmann (CSU), innanríkisráðherra Bæjaralands, tók þriðjudaginn 27. október undir með Seehofer og sagðist aldrei hafa kynnst öðru til þessa en vinsamlegu samstarfi í lögreglumálum við Austurríkismenn, nú mætti hins vegar segja að austurrísk stjórnvöld sýndu „vísvitandi tillitsleysi“. Yrði ekki breyting hjá Austurríkismönnum neyddust Bæjarar til að grípa til sinna ráða.

Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, sagði laugardaginn 24. október við Kronen Zeitung að Þjóðverjar tækju á móti alltof fáum hælisleitendum sem skapaði mikinn þrýsting á Austurríkismenn.

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …