Home / Fréttir / Flóttamannastraumurinn um Króatíu, Slóveníu og Austurríki til Þýskalands

Flóttamannastraumurinn um Króatíu, Slóveníu og Austurríki til Þýskalands

 

Ungir karlar setja svip sinn á flóttamannastrauminn. Myndin er tekin á landamærum Króatíu og Slóveníu.
Ungir karlar setja svip sinn á flóttamannastrauminn. Myndin er tekin á landamærum Króatíu og Slóveníu.

Eftir að Ungverjar lokuðu landamærum sínum streymir fólkið sem fór um þau inn á Schengen-svæðið um Króatíu og Slóevníu til Austurríkis þar sem yfirvöld juku mannafla í skráningarstöðvum laugardaginn 17. október áður en fólkið hélt áfram til Þýskalands þar sem það vill dveljast. Á um það bil einum mánuði höfðu 170.000 manns farið í gegnum Ungverjaland til Austurríkis og Þýskalands. Króatar segjast ætla að halda landamærum sínum opnum á meðan Þjóðverjar taka á móti flóttafólki.

Slóvenar höfðu tök á að búa sig undir för flóttamanna um land sitt þegar í ljós kom að Ungverjar ætluðu alfarið að loka landamærum sínum. Hafa flóttamannabúðir verið opnaðar í Slóveníu til að auðvelda fólki ferðina í gegnum landið. Flestir flóttamannanna eru ungir karlar.

Austurríkismenn reistu upphituð tjöld við landamærastöð sína í Spielfeld. Starfsfólk Rauða krossins sinnir þar aðkomufólkinu og á skömmum tíma safnaðist þar saman 1.500 manna hópur sem síðan vildi halda áfram för sinni. Stjórnvöld í Zagreb, Ljubljana og Vínarborg hafa komið sér saman um að mynda leið fyrir fólkið svo að það geti komist til Þýskalands á meðan þýska stjórnin fylgir þeirri stefnu að taka við öllum sem þangað vilja koma.

Ungversk stjórnvöld segja að strangri vörslu sé haldið uppi við ytri landamæri landsins og um þau geti þeir farið sem hafi til þess nauðsynleg skilríki. Í raun geta þeir sem koma að ungversku landamærunum frá Serbíu óskað eftir hæli í Ungverjalandi án þess að stíga fæti sínum inn í landið og beiðninni er hafnað á nokkrum mínútum.

Leiðtogaráð ESB gerði á fundi sínum í Brussel aðfaranótt föstudags 16. október Tyrkjum tilboð um að aðstoða þá við að reka flóttamannabúðir í Tyrklandi og takast á við flóttamannavandann án þess að beina fólki frá landinu. Embættismenn í Brussel létu í ljós bjartsýni um að samkomulag næðist við Tyrki. Utanríkisráðherra Tyrkland sló þó fljótt á þá bjartsýni þegar hann sagði ekkert afráðið í samskiptunum við ESB, Tyrkir vildu skoða málið nánar. ESB yrði að leggja meira fé af mörkum en þann milljarð evra sem hafði verið nefndur. Tyrkir telja að þrír milljarðar fyrsta árið séu nær lagi.

Angela Merkel Þýskalandskanslari vill að samið sé við Tyrki um að loka leiðum frá landi þeirra til grísku eyjanna undan ströndum þess. Þessar leiðir hafa smyglarar nýtt sér til að koma fólki inn á Schengen-svæðið í Grikklandi. Merkel fór til Tyrklands sunnudaginn 18. október til viðræðna við tyrkneska ráðamenn.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …