Home / Fréttir / Flóttaáætlun sögð tilbúin fyrir Pútin

Flóttaáætlun sögð tilbúin fyrir Pútin

Abbas Galljamov

Vladimir Pútin Rússlandsforseti áformar að leita hælis í Suður-Ameríku tapi hann stríðinu í Úkraínu sagði fyrrverandi aðstoðarmaður hans þriðjudaginn 6. desember.

Abbas Galljamov, pólitískur ráðgjafi og fyrrverandi ræðuritari Pútins sagði á samfélagssíðunni Telegram að síðastliðið vor hefðu aðstoðarmenn forsetans í Kreml tekið til við að setja saman flóttaáætlun fyrir forsetann undir heitinu: Örkin hans Nóa.

Galljamov vitnaði í ónafngreinda heimildarmenn sem starfa nærri Pútin. Sjálfur hefur hann ekki unnið fyrir Pútin síðan árið 2010 og hann býr nú í útlegð í Ísrael. Að hans mati eru áformin um að Pútin yfirgefi Rússland frekar fjarstæðukennd.

Í frétt á vefsíðunni Business Insider er þess getið á að sérfræðingar búist almennt ekki við að Pútin verði hrakinn frá völdum, hvað sem líði óförum Rússa í Úkraínu.

Vitnað er í fyrrverandi vestræna stjórnarerindreka og embættismenn sem sögðu Reuters-fréttastofunni í október að Pútin héldi fast um stjórnartaumana. Í maí sögðu bandarískir embættismenn við CNN-sjónvarpsstöðina að ekkert benti til að Pútin yrði ýtt til hliðar.

Nú segir Galljamov að neyðaráætlun Pútins snúist um að „finna ný lönd ef óbærilegt verði í föðurlandinu“.

Þá segir hann: „Nánustu samstarfsmenn leiðtogans útiloka ekki að hann tapi stríðinu, tapi völdum og verði með hraði að leita hælis annars staðar.“

Hann segir einnig að fyrst hafi Pútin íhugað að fara til Kína en hann hafi síðar ýtt þeirri hugmynd frá sér þar sem litlar líkur yrðu á „samvinnu“ af hálfu Kínverja.

„Kínverjar eru of sjálfhverfir og hafa of mikla fyrirlitningu á öðrum – einkum þeim sem tapa. Þeim nægir ekki vonin eins og nú er orðið ljóst,“ skrifar hann.

Galljamov segir að nú séu Argentína og Venesúela efst á lista Pútins yfir hælislönd. Hann bendir á að rússneski auðmaðurinn Igor Setsjin hafi góð tengsl við Nicolás Maduro, einræðisherra í Venesúela.

Fullyrðir Galljamov að Setsjin, sem stendur nærri Pútin, hafi verið falin forysta um framkvæmd flóttaáætlunarinnar.

Insider segist ekki hafa tekist að fá staðfestingu annarra á þessum fullyrðingum Galljamovs sem var í hópi ræðuritara Pútins 2000 til 2001 og síðar frá 2008 til 2010. Frá 2018 hefur hann búið í útlegð í Ísrael. Frá því að innrásin hófst í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefur hann sagt álit sitt á framvindu stríðsins og stöðu mála í Rússlandi.

Pútin flutti sjónvarpsávarp miðvikudaginn 7. desember og sagði að Úkraínustríðið kynni að verða mjög langt og hættan á kjarnorkuátökum ykist.

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …