Home / Fréttir / Flotalausir Úkraínumenn ógna Svartahafsflota Rússa með drónum

Flotalausir Úkraínumenn ógna Svartahafsflota Rússa með drónum

Nýjasti tundurskeytadróni Úkraínumanna, Magura V5, sem siglir á allt að 80 km hraða og getur flutt 320 kg sprengju allt að 800 km..

Stjórnvöld í Kyív hafa í fyrsta sinn birt myndir af nýjum Magura V5 fjarstýrðum tundurskeytadróna sem nota má til að hitta skotmörk í allt að 800 km fjarlægð. Tvö rússnesk skip urðu fyrir árás slíkra dróna á tveimur sólarhringum.

Þótt um landstríð sé að ræða í Úkraínu er ekki unnt að líta fram hjá því að herflotar landanna koma þar einnig við sögu og ekki má vanmeta þá. Þetta kann að koma mörgum á óvart því að varla hefur minnst opinberlega á flota Úkraínu síðan Rússar réðust inn í landið 24. febrúar 2022. Rússar grönduðu nær öllum flotanum í upphafi innrásarinnar og nú eru aðeins fáeinir litlir bátar í honum. Herskip öflugs Svartahafsflota Rússlands ættu því að geta farið allra ferða sinna um hafsvæðið að tyrknesku sundunum sem tengja það við Miðjarðarhaf. Málum er þó ekki þannig háttað því að Úkraínuher hefur þrátt fyrir miklu minni flotastyrk tekist að útiloka rússnesk herskip frá því að fara hindrunarlaust hvert sem þau vilja.

Úkraínuher hefur notað flugdróna, flugskeyti gegn skipum og einnig flotadróna til að stunda skæruhernað gegn rússneska flotanum. Fyrstu viðvörunina fengu Rússar 14. apríl 2022 þegar Úkraínumenn sökktu beitiskipinu Moskvu, flaggskipi rússneska Svartahafsflotans., með tveimur Neptune-flaugum. Rússar hafa verið varir um sig síðan og haldið skipum sínum fjarri strönd Úkraínu án þess að Úkraínumenn hafi hætt að þjarma að rússneska flotanum. Helsta tæki þeirra til þess eru tundurskeytadrónarnir. Þá hafa þeir oft ráðist á stóru flotahöfnina sem Rússar eiga í Krímborginni Sevastopol. Þeim hefur ekki tekist að eyðileggja stór rússnesk flotamannvirki þar en sálræn áhrif árásanna eru mikil. Rússneskir hermenn eru ekki einu sinni óhlutir í landi.

Úkraínumenn birta reglulega myndskeið sem sýna dróna þeirra granda bráð sinni, stundum hreykja þeir sér um of. Í maí var til dæmis sagt frá því í úkraínskum fjölmiðli að dróni hefði hæft rússneskt njósnaskip, Ivan Khurs. Í því tilviki tókst rússnesku sjóðliðunum hins vegar að eyðileggja marga flotadróna sem sendir voru til að granda skipi þeirra. Ekkert bendir til að rússneska skipið hafi laskast vegna tundurskeytis. Þá var ranglega fullyrt að freigátunni Admiral Markov, sem kom í stað beitiskipsins Moskvu, hefði verið sökkt. Sumt hefur Úkraínumönnum hins vegar tekist eins og örlög skipanna tveggja sem sökkt var nú í vikunni sýna.

Myndskeið Úkraínumanna sýnir að aðfaranótt fimmtudagsins 3. ágúst hafi fyrsti tunduskeytadróninn lent á rússnesku landgönguskipi, Olenegorskiy Gornyak, sem var í mynni rússnesku flotahafnarinnar í Novorossiisk.

Skipið sökk ekki en hallaði mikið á bakborða og var unnt að draga það stórskaddað ef marka má myndskeið sem birtust á samfélagsmiðlum. Það sem er sérstaklega athyglisvert við árásina er ekki að skipi var grandað heldur hitt að hún var ekki gerð í Sevastopol heldur 300 km austar í Novorossiisk sem er á strönd Rússlands en ekki Krímskaga. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að Úkraínuher getur ráðist á Rússa næstum hvar sem er á Svartahafi, ekki aðeins rétt við eigin strönd.

Í annarri árásinni sem líklega var gerð aðfaranótt laugardagsins 5. ágúst var ráðist á rússneskt olíuskip, Sig, á Kertsjsundi. Vegna þessa neyddust Rússar að banna alla umferð um þetta hernaðarmikilvæga sund sem tengir Azovhaf og Svartahaf að morgni laugardagsins 5. ágúst. Siglingastjórn haf- og fljótaflutninga í Rússlandi sendi frá sér tilkynningu um að „árás [hefði] líklega verið gerð með flotadróna“. Myndskeið sem birt var í Kyív staðfestir þá kenningu.

Olíuskipið er „á floti“ en á því er „gat við vatnslínu á vélarrúminu“. Þetta atvik er sögulegt því það sýnir að Úkraínumenn hafa afl til að granda rússneskum

hafnarmannvirkjum og skipum sem tengjast útflutningi Rússa um Svartahaf. Fyrir rússneska herinn skiptir sköpum að hafa opna siglingaleið til liðsmanna sinna í rússnesku flotastöðinni Tartus í Sýrlandi. Hafnirnar við Svartahaf gegna líka mikilvægu hlutverki fyrir Rússa sjálfa. Þeir reyna að nota þær til að sniðganga refsiaðgerðir gegn sér sem banna inn- og útflutning.

Það þrengir að rússneska Svartahafsflotanum. Herskipin þar eru aðeins átta og sjö kafbátar með Kalibr-stýriflaugar sem skjóta má á skotmörk í allt að 2.000 km fjarlægð. Rússar hafa sent slíkar flaugar á skotmörk í Úkraínu.

Ólíklegt er að Úkraínumenn hafi látið staðarnumið á Svartahafi. Á nýlegri, alþjóðlegri vopnasýningu í Tyrklandi sýndu þeir myndir af nýjum flotadróna sínum, Magura V5, sem siglir á allt að 80 km hraða og getur flutt 320 kg sprengju allt að 800 km. Líkist dróninn hraðbát sem þýtur eftir yfirborði sjávar.

Rússar eiga einnig flotadróna. Líklega notuðu þeir einn af þeim í vor til að eyðileggja brú Úkraínumanna í ármynni Dniester. Ekkert bendir þó til að Rússar ráði yfir nokkru vopni til að halda aftur af Úkraínumönnum á Svartahafi. Til að framfylgja hafnbanni sínu þar verða Rússar að treysta á herskip sín og kafbáta, flugskeyti og dróna sem notaðir hafa verið til árása á hafnir Úkraínu, einkum Odessa.

Úkraínumenn hafa undirtökin þegar litið er til mannlausra báta eða flotadróna á Svartahafi. Þegar þeir beita þessum tækjum njóta þeir aðstoðar bandamanna sinna, einkum frá Bandaríkjamönnum sem nota MQ-9 Reaper dróna til að safna upplýsingum um ferðir rússneskra skipa á Svartahafi. Rússneskir sjóliðar verða því ekki í rónni á þessum slóðum á næstunni, þeir eiga í höggi við Úkraínumenn á hafi úti þótt þeir sjái aldrei nein herskip með fána þeirra.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …