Home / Fréttir / Flotaæfingar Rússa á írskum kolmunnamiðum – sjómenn mótmæla

Flotaæfingar Rússa á írskum kolmunnamiðum – sjómenn mótmæla

Brim sendi Víking til kolmunnaveiða við Írland.

Írskir sjómenn ætla á friðsaman hátt að trufla flotaæfingar Rússa í írskri efnahagslögsögu segir Patrick Murphy, framkvæmdastjóri samtaka fiskframleiðenda á suðvestur Írlandi við vefsíðuna Politco þriðjudaginn 25. janúar. Íslenskir sjómenn hafa farið á kolmunnaveiðar á þessum slóðum en þriggja daga sigling er á þau frá Reykjavík.

Flotaæfingin verður um 240 km undan suðvestur strönd Írlands í febrúar. Írskir sjómenn segja að æfingin fari fram á mikilvægu veiðisvæði. Juri Filkatov, sendiherra Rússa á Írlandi, segir að um „litla æfingu“ sé að ræða „ef til vill þrjú eða fjögur skip, ekki meira“.

„Þarna er um að ræða afkomu sjómanna og fjölskyldna þeirra á öllu þessu strandsvæði,“ sagði Murphy við RTE-útvarpsstöðina 25. janúar. „Þetta er okkar hafsvæði. Gætir þú ímyndað þér hvað gerðist ef Rússar gengju á land á Írlandi til að skjóta eldflaugum, hvað heldur þú að þeir kæmust langt með það?“

Murphy segir að um hálfur milljarður tonna af kolmunna sé á svæðinu þar sem Rússar ætli að æfa sig. Hann óttast að skjálftar kunni að myndast þegar skotflaugar verða sendar á loft í æfingunum og þeir geti haft margra ára áhrif á ferðir túnfisks í hafinu.

„Við viljum gera eitthvað. Við ætlum ekki að bjóða þeim birginn, við ætlum ekki að sækja þannig að þeim, en við munum örugglega láta af okkur vita og við viljum að ríkisstjórnin geri eitthvað fyrir okkur,“ sagði Murphy.

„Skip okkar fara til veiða á þessu svæði fyrsta febrúar,“ sagði Murphy við Politco. Snúi eitt skip til hafnar verður annað sent í þess stað til að ávallt verði skip á svæðinu. „Verði þetta nálægt flotaæfingunni væntum við að rússnesku skipstjórnendurnir fari að reglum um að forðast beri árekstur.“ Írskur sjávarútvegur hefur „fengið sig fullsaddan,“ sagði Murphy.

Veiðisvæði kolmunnans er á svipuðum slóðum og Rússarnir ætla að æfa herflota sinn í febrúar.

Simon Coveney, utanríkisráðherra Íra, sagði mánudaginn 24. janúar að rússneski herflotinn væri „óvelkominn“. Rússneski sendiherrann Filatov sagðist ekki vita hvort flaugum yrði skotið á loft frá herskipunum eða hvort kafbátar kæmu þar við sögu. Æfingin er innan lofthelgi Írlands og hafa rússnesk yfirvöld tilkynnt írskum flugmálayfirvöldum um æfingarnar sem verða í febrúar.

Þess má geta að skipin Venus og Víkingur frá Brimi fóru í febrúar 2020 um 800 sjómílna ferð fram og til baka á kolmunnamiðin suðvestur af Írlandi þar sem rússnesku skipin ætla nú að æfa.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …