Home / Fréttir / Flotaæfingar flugmóðurskips í norðurhöfum

Flotaæfingar flugmóðurskips í norðurhöfum

HMS Queen Elizabeth og norska freigátan Otto Sverdrup í norðurhöfum. Strönd Noregs í bakgrunni.

Breska flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth var föstudaginn 6. október á siglingu undan strönd Norður-Noregs. Þá flugu F-35 B orrustuþotur frá skipinu í veg fyrir rússneska eftirlitsflugvél sem kom frá Kólaskaga, fyrir austan Noreg, í átt að flugmóðurskipinu og fylgdarskipum þess. Norskar F-35 A orrustuþotur voru einnig sendar á vettvang.

F-35 orrustuþotu frá HMS Queen Elizabeth flogið í veg fyrir rússneska njósnavél.

HMS Queen Elizabeth lagði í norðurför sína frá Portsmouth á Suður-Englandi 9. september sl. Skipið hefur undanfarnar tvær vikur verið við æfingar undan strönd Noregs ásamt skipum og flugvélum frá Þýskalandi, Belgíu, Frakklandi, Bandaríkjunum, Finnlandi og Svíþjóð.

Þegar flotadeildin er innan norskrar lögsögu er norska freigátan Otto Sverdrup í forystu hennar.

Æfingar flotadeildarinnar hafa verið á hafsvæðunum milli Íslands og Noregs. Þær eru til marks um að herstjórn NATO vill sýna að bandalagsríkin láti að sér kveða á norðurslóðum.

Hernaðarleg yfirvöld í Bretlandi og Noregi veita af öryggisástæðum ekki upplýsingar um ferðir skipanna. Fimmtudaginn 5. október birtust hins vegar myndir frá HMS Queen Elizabeth á Z (Twitter) sem sýndu skipverja taka þátt í athöfn sem er á ensku kölluð Blue Nose Ceremony – Blánefs-athöfnin. Hún fer fram þegar sjófarendur sigla yfir heimskautsbauginn.

Miðvikudaginn 4. október birtust myndir sem sýndu brött fjöll á strönd Noregs.

Flugmóðurskipið er 250 metra langt. Um borð í því eru þyrlur og F-35 orrustuþotur. Venjulega eru 700 til 900 í áhöfn skipsins en verða um 1.600 þegar það er fullhlaðið flugvélum.

 

Heimild: Barents Observer

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …