Home / Fréttir / Flota- og landgönguþætti í mikilli NATO-æfingu lokið

Flota- og landgönguþætti í mikilli NATO-æfingu lokið

HMS Prince of Wales leiðir sóknarflota við Norður-Noreg.

Þriðjudaginn 12. mars lauk þætti fjölþjóðlegs sóknarflota undir forystu breska flugmóðurskipsins HMS Prince of Wales í mestu heræfingu NATO í rúm 40 ár, Steadfast Defender 2024.

Þessi þáttur æfingarinnar, Joint Warrior, sem Bretar stjórnuðu, snerist um aðgerðir á sjó, landi og í lofti til varnar gegn sókn andstæðings inn á NATO-svæði. Joint Warrior fór fram á Noregshafi, við og á norðurströnd Noregs, það er fyrir austan og norðan Ísland.

Í för með HMS Prince of Wales voru rúmlega 30 skip, fjórir kafbátar, fjöldi flugvéla, eftirlitsvélar og F-35 Lightning orrustuþotur auk þyrlna og annarra loftfara. Í heraflanum voru rúmlega 20.000 manns meðal annars frá Kanada, Danmörku, Frakklandi og Spáni.

Þetta var í þriðja sinn á innan við ári sem flugmóðurskip frá NATO-ríki leggur leið sína til Norður-Noregs.

Haustið 2023 var HMS Queen Elizabeth, systurskip HMS Prince of Wales og flaggskip breska flotans, í forystu fjölþjóðlegs herflota sem sigldi í norðurhöf. Vorið 2023 var USS Gerald R. Ford, stærsta bandaríska flugmóðurskipið, á ferð norður með strönd Noregs og við æfingar með herafla frá ýmsum NATO-ríkjum.

Fyrsta bandaríska flugmóðurskipið sem sigldi í norðurhöf eftir meira en 30 ára hlé á ferðum slíkra skipa hér á þessum slóðum í N-Atlantshafi var USS Harry S. Truman í september 2018 í aðdraganda heræfingarinnar miklu, Trident Juncture 2018. Var þá flogið með íslenska stjórnmálamenn og embættismenn um borð í skipið þegar það sigldi fyrir sunnan land.

HMS Prince of Wales kom í fyrstu og einu heimsókn sína til Reykjavíkur í apríl 2022 og héðan hélt skipið norður til Jan Mayen og kynnti breska flotastjórnin sér aðstæður í norsku veðurathugunarstöðinni þar. Var það í fyrsta sinn sem breskt herskip athafnaði sig þar.

Upphaflega ætluðu Bretar að senda HMS Queen Elizabeth til að leiða Joint Warrior æfinguna en vegna bilunar varð fallið frá því. Þá var gengið í það að gera HMS Prince og Wales sjóklárt og tók það ekki nema eina viku þótt skipið væri í flotkví til viðhalds þegar kallið kom.

HMS Prince of Wales hefur verið í þjónustu breska sjóhersins síðan 2019. Skipið er knúið díselvélum, 280 m langt, 70 m breitt og alls 65.000 tonn. Lágmarksáhöfn skipsins er 700 manns. Séu flugvélar um borð fjölgar upp í allt að 1.600 í áhöfninni.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …